19.05.1921
Efri deild: 73. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (3078)

79. mál, sveitarstjórnarlög

Guðmundur Ólafsson:

Það var út af því, sem háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) sagði, um, að leitt væri, ef menn gætu ekki greitt atkv., af því þeir hefðu ekki kynt sjer málið. Jeg held nú, að háttv. þdm. hafi gert það að gamni sínu áðan að greiða ekki atkv., því að sú breyting, sem gerð var á lögunum í Nd., var einungis sú, að brtt., sem samþ. var hjer í Ed., var feld úr frv. í háttv. Nd., svo vitaskuld hafa háttv. fundarmenn kynt sjer málið. Lögunum frá 10. nóv. 1905 verður ekki að öðru leyti breytt hjer en að það kemur skýrara fram, hverjum beri að greiða útsvar utan hrepps, og er því bót að breytingunni.

Það er vitaskuld alveg eins góður tími til að athuga mál þetta, þó það fari ei til nefndar, og jeg legg til að það nái fram að ganga á þessu þingi.