19.05.1921
Efri deild: 73. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (3079)

79. mál, sveitarstjórnarlög

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg er samþykkur hv. 1. þm. Húnv. (G. Ó.) um, að mál þetta nái fram að ganga; þetta frv. er aðeins lítil breyting á lögum frá 10. nóv. 1905, og er einungis til að skýra skoðun nefndarinnar, sem var deilt um, þegar lögin voru sett. Jeg var þá frsm. málsins, og tók það þá fram, að ekki væri rjett að leggja útsvar á menn, sem fengju slægjur á leigu, ef tekjurnar væru hjá bóndanum, enda er slíkt ósanngjarnt.

Það fara t. d. margir hjeðan upp í Borgarfjörð og fá þar slægjur lánaðar, og jeg veit til þess, að einn borgaði 2000 kr. fyrirfram, áður en hann bar ljá ígras. Bóndinn fjekk þarna 2000 kr. tekjur, án þess hann þyrfti nokkuð fyrir að hafa, því hann hafði nóg slægjuland fyrir sig, og getur hann því vel þolað útsvar, en það væri ósanngirni að leggja útsvar á leigjanda slægjunnar, því hey hans mun hafa orðið nógu dýrt fyrir því. Sú breyting, sem hjer um ræðir, er í þessu innifalin. Öðru máli er að gegna, þegar eigandi jarðarinnar er utansveitar. Það er mjög ilt að orða þetta vel, en meiningin með frv. er að koma þessu skýrt fram.