28.04.1921
Neðri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (3091)

84. mál, vextir

Gunnar Sigurðsson:

Mjer skilst svo, að háttv. fjhn. hafi ekki orðið á eitt sátt um frv. þetta, þó að allir nefndarmenn hins vegar hafi skrifað undir nál. fyrirvaralaust. Og mjer skilst einnig, að háttv. frsm. (M. K.) hafi ekki skilið tilgang frv. með breyting á vaxtahækkun gegn veði í fasteign.

Sú stefna var, eins og kunnugt er, uppi fyr á tímum, að það þótti okur að taka vexti af peningum, og var bannað með lögum. En þetta breyttist þó fljótt og leiga af lifandi peningi kom í vaxta stað. Þannig byrjuðu menn fyrst að fara í kringum þetta lagabann, og svo fór að okra mátti eins með leigu, enda komu vextirnir bráðlega aftur, og frjáls peningaverslun gekk í gildi. Jeg hafði í greinargerð minni fyrir frv., og eins í framsöguræðu við 1. umr., enga áherslu lagt á það, hvort vextirnir yrðu 8%, heldur aðeins í samræmi við það, sem aðalbankar landsins taka. Jeg tel jafnvel rjettara að miða vextina við innlánsvexti í aðalbanka landsins.

Ef hv. frsm. (M. K.) þekti ástandið hjer á landi, og þó sjerstaklega hjer í bæ, að ekki er hægt að fá lán út á 1. veðrjett í húsi, og því getur oft farið svo, að menn verði tilneyddir að selja húsin fyrir lítið verð eða verði jafnvel gjaldþrota, enda þótt þeir eigi mikið meira en fyrir skuldum, þá mundi hann skilja tilgang þessa frv.

Jeg vil leggja áherslu á það, að vextir hljóta að fara eftir því, hver eftirspurn peninganna er. Eins og nú er, fara bankarnir í kringum lögin. Þeir lána í víxilformi gegn 1. veðrjetti í húsunum og sýnist þetta ærið athugavert, svo framarlega sem eigi er tilgangurinn að hafa lög einungis til að brjóta þau, og sumum mundi nú þykja það athugavert líka.

Þegar ákveðin var 6% vaxtahæðin í lögunum frá 1890, voru vextir manna í millum 5^. Hefði jeg því í frv. mínu átt að hafa vextina 9%, en eins og jeg hefi tekið fram, þótti mjer engu skifta um vaxtahæðina, heldur aðeins, að þeir væru ekki lögákveðnir miklu lægri en alment tíðkast og hægt er að fá lán gegn. En samkvæmt brtt. hv. fjvn. er þetta „princip“ alveg brotið og sýnist mjer einkennilegt, að hún skyldi jafnvel ekki hafa vextina enn lægri fyrst hún á annað borð heldur, að það stoði að lögbjóða vexti, og að allir muni eftir því fara.