16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í C-deild Alþingistíðinda. (3101)

90. mál, ellistyrkur presta og eftirlaun

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg skal fúslega viðurkenna, að jeg setti mig á móti því, að stjórnin flytti þetta frv. sem stjórnarfrv. En það var ekki aðallega af þeirri ástæðu, að það hefir útgjöld í för með sjer, heldur af því, að það ráðgerir hækkun eftirlaunanna og er því spor í öfuga átt við þá stefnu, sem nú er upp tekin, um afnám eftirlaunanna. Svo er annað atriði. Þegar athuguð eru nöfn þeirra manna, sem góðs eiga að njóta af frv., þá eru þar margir, sem hafa fastar stöður, og jeg sje ekki, í hlutfalli við núverandi og fyrverandi stöður þeirra, að það sje nein sanngirniskrafa að hækka eftirlaunin.

Það er kunnugt, að sá sjúkdómur ásækir presta, sem lengi hafa þjónað í köldum kirkjum, að þeir verða veikir í hálsinum, en geta þó sint öðrum störfum. En þegar svo er, virðist ekki þörf á hækkuðum eftirlaunum. Jeg veit, að nefndin mun gera sjer ljóst, hvaða menn hjer eiga hlut að máli og muni sýna þeim alla sanngirni.

Mjer skildist, að háttv. flm. (M. J.) áliti, að þetta frv. hefði átt að koma inn í fjárlagafrv., en jeg skil ekki, hvaðan honum kemur það, því það hefir aldrei komið til mála. Að öðru leyti skal jeg ekki segja meira um þetta mál, sem að sjálfsögðu fer til nefndar og þá fremur til allshn., vegna þess, að fjhn. hefir svo mikið að gera.