07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (3108)

90. mál, ellistyrkur presta og eftirlaun

Fjármálaráðherra (M. G.):

Mjer er ekki vel ljóst, á hverju hv. frsm. (Jak. M.) byggir það, að hjer sje um litla upphæð að ræða.

Mjer skilst, að þetta frv. nái til allra presta, sem nú eru í embættum og eftirlaunarjett hafa, en hinu er haldið fram, að það nái aðeins til þeirra, sem nú eru á eftirlaunum.

Annars virðist það dálítið undarlegt, að þingið 1921 hækkar eftirlaunin, en á þinginu 1919 var samþ. að afnema þau. Trúi jeg því ekki, að þingið geri sig sekt um þvílíkan hringlandahátt.

Skal jeg, í sambandi við þetta, láta þess getið, að nú eru 25 prestar á eftirlaunum. 6 af þeim hafa fast starf, sæmilega launað. Hafa starfskraftar þeirra eigi verið að þrotum komnir, þó að þeir hafi ekki kosið að vera prestar lengur; 4 þeirra hafa fengið allmikla bót á launum sínum í 18. gr. fjárlaganna og 3 af þeim eru stórefnamenn. Í fjárlögunum nú hefir einnig verið veitt helmingi hærri upphæð en áður var til eftirlauna presta og prestsekkna.

Jeg sje því ekki, að í hlutfalli við önnur eftirlaun sje hjer um nokkra sanngirniskröfu að ræða, heldur óviðkunnanlegan hringlandahátt í því að lögleiða hjer eftirlaun fyrir sjerstaka stjett.

Biskup kom með þetta frv. til mín í vetur og bað mig að flytja það, en jeg sagði honum, að jeg vildi það eigi. Sýndi jeg honum fram á, hvers vegna jeg vildi það eigi, og virtist mjer hann fallast á það og skilja vel ástæður mínar. Jeg er hissa á hv. fjárhagsnefnd að mæla með þessu frv., og skora á hv. deild að fella það.