07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (3111)

90. mál, ellistyrkur presta og eftirlaun

Frsm. (Jakob Möller):

Það er ekki rjett hjá hæstv. fjrh. (M. G.), að hjer sje um ósamræmi við stefnu þingsins 1919 að ræða. Hjer er ekki verið að taka neina sjerstaka stjett út úr, heldur aðeins verið að bæta úr gömlu misrjetti, sem þessi stjett varð fyrir 1919. Hefir hv. samþm. minn (M. J.) gert glögga grein þessa, og er það í fullu samræmi við skoðun nefndarinnar. Er líka þess að gæta, að þó að sumir þessara presta sjeu í föstum stöðum, þá eru þeir þó allir aldraðir menn, eftir þeim upplýsingum, sem biskup hefir gefið. Það, að sumir þessara manna hafa fengið nokkra uppbót á eftirlaunum sínum, sýnir einungis, að laun þeirra hafa þótt óviðunandi, og er því þessi ástæða fremur til stuðnings málinu en móti.

Hv. samþm. minn (M. J.) tók það einnig rjettilega fram, að uppbót fjárlaganna varð ekki svo há, sem til var stofnað, vegna þess, að hv. deild vissi af þessu frv., og er mjer kunnugt um, að sumir hv. þdm. greiddu atkv. á móti hækkun fjárlagastyrksins af þeirri ástæðu. Hjer er aðeins um það að ræða að bæta úr því misrjetti, að sumir prestar fá í eftirlaun aðeins nokkur hundruð, en aðrir miklu meira, samkv. launalögunum frá 1919 og lífeyrissjóðslögunum, og hjer koma aðeins þeir prestar til greina, sem ekki hafa gengið undir nýju launalögin.