21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (3122)

98. mál, vegir

Flm. (Einar Þorgilsson):

Eins og tekið er fram í ástæðum frv., er það flutt fram af mjer eftir ósk og áskorun sýslunefndar og sýslubúa í Gullbringusýslu. Frv. hefir misorðast lítillega í 1. gr., en jeg hefi ekki getað fengið það lagfært, vegna þess, að það var komið í skjalasafn þingsins áður en þess varð vart. Jeg hefi því komið með brtt. um þessa lagfæringu, á þskj. 162, sem jeg vona, að verði samþ. ásamt frv. — Ástæður frv. eru tilgreindar í ástæðunum, sem fylgja því, en þó vil jeg fylgja því með fáeinum orðum úr hlaði.

Eins og kunnugt er af ástæðum frv., eru vegalengdir í þessari sýslu svo miklar, að vafasamt er, hvort slíks eru nokkur dæmi annarsstaðar hjer á landi. Sýsluvegir eru sem sje 85–87 km. Vegurinn milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar er mjög fjölfarinn frá alda öðli, sem skiljanlegt er, þar sem hann liggur til Suðurnesja, þar sem hafa verið ein aflasælustu fiskiver landsins. Menn hafa flykst þangað í hópum, jafnt úr fjærsveitum sem nærsveitum. Þegar þess er gætt, og hins, sem er alkunnugt, að jarðlagið er brunahraun og apall, þá gegnir furðu, hve lengi hefir dregist að gera á honum umbætur. En það er vegna hins mikla kostnaðar, sem kemur ljóslega fram í ástæðum frv., en þær tölur eru teknar eftir gefnum skýrslum.

Þegar nú er tekið tillit til þess, að hjer er um eitt sýslufjelag að ræða, sem hefir lagt svona mikið fje fram, og á eftir að leggja fram enn meira, þá verður ljóst, að það muni verða ofbyrði. Þess vegna hefir sýslunefnd og sýslubúar yfirleitt eftir nákvæma athugun komist að þeirri niðurstöðu, að sanngjarnt sje, að vegarspotti þessi verði gerður að þjóðvegi og kostaður af ríkisfje, og þó svo yrði gert, hefði sýslan samt eftir nál. 45 km. til viðhalds. Ef til vill gerir einhver þá athugas., að með þessu yrði ljett óþarflega miklu af hreppunum. En svo er ekki. Margir hreppar þurfa að leggja langa vegarspotta til þess að hafa not af aðalveginum. Og þegar þess er gætt, að sýslan sjálf verður að greiða vexti og afborganir af vegalánunum og þarf í framtíðinni að leggja stórfje í vegi, sem enn eru ólagðir, þá er ekki of mælt, að henni verði það ofbyrði. Svo þegar tekið er tillit til þess, að vegurinn tengir saman 5 kauptún á Suðurnesjum og Hafnarfjörð og Reykjavík, ásamt vegakerfi Suðurlandsundirlendisins, þá virðist sanngjarnt að gera hann að þjóðvegi. Það er heldur ekki nýmæli að auka tölu þjóðvega. Á Alþingi 1919 var rætt um það mál í samvinnunefnd samgöngumála vegna málaleitana, sem komið höfðu, annars vegar frá hv. þm. N.-Þ. og hv. þm. N.-M. og hins vegar hv. þm. G.-K., og varð það til þess, að nefndin bar fram þál., sem í 1. gr. skorar á stjórnina „að láta gera rannsókn á því, hvort eigi sje rjettmætt að fjölga þjóðvegum og flutningabrautum, og hvar sú fjölgun ætti helst að verða.“ í ástæðunum er talað sjerstaklega um veginn milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Að endingu vænti jeg þess, að frv. verði hleypt til 2. umr. og hv. samgmn.