07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (3147)

120. mál, launalög

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get þegar svarað fyrirspurn hv. þm. Borgf. (P. O.), að minsta kosti að nokkru leyti. Jeg býst ekki við, að dómari, sem á nokkuð undir þessum lögum mundi mega dæma, það má vel vera, að í undirdóm yrði að skipa sjerstaka menn. En hæstarjettardómarar fá enga uppbót (P. O.: Jú, 500 kr.). Nú, það má vel vera, en jeg held að hægt verði þá að finna menn, sem geta dæmt í þeirra stað.

Jeg nefndi í gær, að málið ætti að fara í fjhn.; mjer finst það mjög eðlilegt, en annars skiftir það engu máli, hvaða nefnd fær það til meðferðar.

Hennar athuganir munu eingöngu snúast um þetta lagaatriði. Jeg hygg, að jeg hafi tekið það fram við umr. um launalögin á þinginu 1919, eins og nú, að með þessu væri ákveðin óhreyfanleg dýrtíðaruppbót til loka ársins 1925, og jeg er samdóma hv. flm. (S. St.) um það, að þetta er þannig vaxið mál, að ekki er ástæða til að ýfast við nefnd, en jeg tel víst, að eftir þá rannsókn fari málið ekki lengra.