07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í C-deild Alþingistíðinda. (3148)

120. mál, launalög

Jakob Möller:

Jeg vildi aðeins sem meðlimur fjhn. mælast undan því, að þessu máli verði vísað til hennar, það á heima í allshn. sem önnur launamál, og aðalflm. (S. St.) er einmitt í þeirri nefnd.

Annars finst mjer óþarfi að vísa málinu til nefndar, því að eftir ræðu hæstv. forsrh. (J. M.) skilst mjer, að ekki verði um það deilt, að þetta hjer, sje með öllu ólöglegt tiltæki.

Viðvíkjandi þessum skólum, sem hæstv. fjrh. (M. G.) gat um að dýrtíðaruppbót hafi verið tekin af, þá er mjer ekki kunnugt um það, en vildi gera þá fyrirspurn, hvort kennarar við þá skóla, sem hann nefndi, standa eins gagnvart launalögunum og aðrir starfsmenn ríkisins. Flensborgarskóli hefir t. d. altaf verið nokkuð sjerstök stofnun, og gilda um hann önnur lagaákvæði en skóla landsins yfirleitt.

Mjer finst, að þar sem hv. flm. (S. St.) segir, að embættismenn, vegna þessara erfiðu tíma, eigi að vera sanngjarnir, en ekki kröfuharðir í garð ríkissjóðs, jafnvel þótt kröfur þeirra lagalega sjeð hefðu við full rök að styðjast, þá mætti eins stinga upp á því, að embættismenn gæfu einhvern hluta af launum sínum, eða að þeir efnaðri gæfu öll laun sín. En það er hver sjálfum sjer næstur, og það er varla hægt að gera kröfu til þess, að þeir gefi eftir rjettindi sín, síst þegar launin ásamt dýrtíðaruppbótinni eru svo, að menn tæpast komast af með þau. Að mista kosti virtist mjer hæstv. fjrh. (M. G.) ekkert hafa á móti því að taka á móti launahækkun, og eru ráðherrar þó hærra launaðir en aðrir embættismenn.

Jeg geri ráð fyrir að greiða atkv. á móti þessu frv.