03.03.1921
Efri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

38. mál, verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg er þakklátur nefndinni fyrir meðferð hennar á frv. Breytingarnar eru ekki stórvægilegar, helst málsbætur, og er jeg þakklátur fyrir þær. Uppkastið, sem stjórnin fjekk, þurfti mikið að laga að orðalagi.

Breytingin við 9. gr., um að sektarákvæðið hækki, hefir við rök að styðjast, því sekt kemur varla fyrir, nema fyrir svik, og er þá sennilega rjettmætt að hafa 100 kr. lágmarkið. Viðvíkjandi 3. og 4. brtt. er jeg ekki sammála nefndinni. Jeg lít svo á, að rjettara sje að hafa „getur“ en „skal“, því að það sje heppilegra að hafa ekki skipun, heldur heimild til að gefa út eyðublöð og reglur um hvað eina. Ef prentuð væru eyðublöð fyrir fram, gæti sumt af þeim reynst alveg óþarft. Þá væri það óþarfa kostnaður. Það er best að hafa þetta eftir því, sem reynslan bendir til að þurfi. Að öðru leyti gerir lítið til, hvort ákvæðið er haft, en stjórnin hagaði þessu þannig til, með sparnaðinn fyrir augum.