07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í C-deild Alþingistíðinda. (3154)

120. mál, launalög

Jakob Möller:

Mjer sýnist sem hæstv. fjrh. (M. G.) komi frekar fram í þessu máli sem „prokurator“ heldur en sem ráðherra. Finst mjer, að eigi sje laust við það, að ástæður hans sjeu fremur fótaveikar og upplýsingarnar sömuleiðis. Hann fer alveg kringum það atriði, að gagnvart embættismönnum ríkisins er dýrtíðaruppbótin hluti af samningnum, en gagnvart lýðskólakennurum, sem ekki eru fastir starfsmenn ríkisins, er hún það ekki. Þegar launakjörum embættismanna var breytt, þá gengu gömlu embættismennirnir undir þau með þeim fyrirvara, að dýrtíðaruppbótin fjelli til þeirra. Dýrtíðaruppbótin til þeirra er því samningsbundin til 1925.

Um hina flokkana er alt öðru máli að gegna, nema ef hæstv. ráðh. getur bent á aðra flokka. Um uppbótina til ráðh. ætla jeg ekki að deila.