07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í C-deild Alþingistíðinda. (3157)

120. mál, launalög

Magnús Jónsson:

Jeg ætla ekki að fara að skattyrðast í þessu máli, en vildi aðeins leiðrjetta það, sem háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) hafði rangt eftir mjer, líklega fyrir misheyrn.

Hann sagði, að jeg hefði sagt, að það mætti ekki breyta launalögunum nje einu sinni opna þau. Mjer hefir auðvitað aldrei komið það til hugar að halda því fram, að það mætti ekki breyta lögunum, heldur aðeins, að þær breytingar, sem gerðar yrðu, gætu ekki náð nema til þeirra starfsmanna, sem fengju veitingu fyrir stöðu sinni, eftir að breytingin yrði gerð. Um hitt, að ekki mætti opna lögin, þá átti jeg við það, að svo virðist, sem sumum hv. þm. sje meinilla við það, að nokkum hlut sje verið að hreyfa við þeim eða athuga þau. Viðvíkjandi þeim starfsmönnum, sem hefðu átt að verða fyrir skaða vegna breytingar á löggjöfinni um dýrtíðaruppbót frá 1918, þá mætti spyrja, hvort þeir hafi leitað rjettar síns. Hafi þeir ekki gert það, þá hefir aldrei verið úr því skorið, hvort breytingin var lögleg, og sannar þá ekkert, hvort nú sje hægt að gera enn freklegri breytingu í þá átt. Auðvitað er hægt að koma fram hverri lögleysu og samningsrofi, ef enginn kærir eða ber sig upp. Auk þess munu þeir menn, sem hæstv. fjrh. (M. G.) nefndi, hafa fengið kjör sín bætt á annan hátt, og því látið sjer nægja með það. Nú er ekki þess að vænta, að þegjandi verði við slíku tekið, enda varla von.

Um það, hvort nokkur dómstóll mundi fær að dæma um þetta mál, þá sýnist mjer, að hinir almennu dómstólar hljóti að geta dæmt um þetta, því að jeg held, að það sjeu ekki gerðar svo strangar kröfur, að dómstólum sje fyrirmunað að dæma um mál, þótt það kunni að snerta þá, sem í dómi sitja, í einhverju litlu atriði, og óbeinlínis. En þó svo væri, þá skil jeg ekki, að það yrði nein skotaskuld úr því að fá óvilhalla lögfræðinga til að dæma málið.

Að endingu skal jeg geta þess út af orðum hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.), að sje það ekki tilgangur frv. að lækka laun embættismanna, og spara með því fje, þá hefir hv. flm. (S. St.) mistekist orðavalið; en svo hygg jeg, að hafi eigi verið.