08.04.1921
Neðri deild: 38. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í C-deild Alþingistíðinda. (3182)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Flm. (Jakob Möller):

Það er óþarfi að bæta miklu við greinargerðina fyrir þessu máli. Lögin frá 8 mars 1920 hafa verið skilin misjafnt. Það var byrjað að framkvæma þau, eins og þau tækju jafnt til alls, bæði þarfs varnings og óþarfs. Þessi sami skilningur hefir einnig komið fram í ræðum ýmsra hv. þm., þar sem aðrir hafa aftur á móti haldið því fram, að heimildin næði aðeins til þess, sem almenn málvenja kallar óþarfa, og sá skilningur felst einnig í nál. viðskiftamálanefndar.

En þar sem þetta er nú á reiki, og það svo, að að baga getur orðið, er nauðsynlegt að ákveða skýrt, hve viðtæka heimild stjórnin á að hafa í þessu efni, og í þeim tilgangi flyt jeg þetta frv.

Þó jeg hafi eftir atvikum getað fallist á það í fyrra að leyfa bann eða takmörkun á innflutningi óþarfs varnings, hefi jeg ekki viljað koma með neitt slíkt ákveðið frv. nú, þó það gæti kann ske komið til mála, því slíkt yrði þýðingarlítið og til lítillar hjálpar í gjaldeyrisvandræðunum. Og upptalning stjórnarinnar á einstökum vörum, sem banna beri innflutning á, hefir staðfest mig í þessu. Því flestar þær vörur, sem þar eru taldar, mega sin svo lítils, að nokkum veginn má á sama standa, hvoru megin hryggjar þær liggja, auk þess sem ekki ætti að vera líklegt, að menn vildu liggja með mikið af slíkri vöru, þar sem yfirvofandi er, að hún muni stórlækka.

Í fám orðum sagt, með samþykt þessa frv. fengjust hreinar línur í málinu, sem enginn ætti að þurfa að amast við. Og þó þetta sje í rauninni einfalt mál, þætti sumum kann ske rjettara að vísa því til nefndar, og sting jeg þá upp á viðskiftamálanefnd.