08.04.1921
Neðri deild: 38. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í C-deild Alþingistíðinda. (3185)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg álít, að ekki komi til mála að samþykkja þetta frv., nema því aðeins, að um leið verði sett nákvæmari ákvæði um málið með sjerstakri reglugerð. En ástæðan til þess, að jeg stend upp, eru einmitt ummæli hæstv. atvrh. (P. J.) um þá reglugerð, sem þegar hefir verið gefin út, um bann gegn innflutningi á óþörfum varningi. Hæstv. ráðherra sagði, að stjórnin hefði þegar tekið afstöðu til þess, hve viðtæka hún áliti heimild sína, sem sje, með áðurnefndri reglugerð. En þá reglugerð álít jeg hins vegar ekki fullnægjandi til þess að rjettlæta samþykt þessa frv., samkvæmt því, sem jeg sagði í upphafi , því jeg álít, að stjórnin hafi í rauninni alls ekki gengið eins langt og henni bar, og nauðsynlegt hefði verið, ef þessar ráðstafanir ættu að koma að nokkru verulegu haldi í því öngþveiti, sem verslunar- og viðskiftalíf þjóðarinnar er því miður komið í. Því það mætti með fullri sanngirni benda á miklu fleiri tegundir, sem eins mikil eða meiri þörf væri að stemma stigu fyrir, eins og nú er ástatt. Vil jeg þar t. d. leyfa mjer að nefna vindlingana, er ekki geta talist annað en óþarfi, og það skaðlegur óþarfi, en miklu fje er þó eytt í. Og þetta lagast auðvitað ekki með einkasölu og ætti því að banna innflutninginn sjálfan, ef menn eru á annað borð þeirrar skoðunar, að hjer sje um óþarfa að ræða. Því það liggur í augum uppi, að þó slík einkasala á óþörfum varningi eigi að vera til þess gerð að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð, og þar með minka að sínu leyti aðra skattabyrði manna, eru menn í rauninni langt frá því að vera færari um að greiða aðra skatta sína, þegar þeir hafa áður eytt meira eða minna af fje sínu til slíks óþarfa. Jeg bendi á þetta aðeins til þess að sanna það, sem jeg sagði í upphafi, að ekki sje unt að samþykkja þetta frv., nema því fylgi ákveðin reglugerð, sem hæstv. stjórn hefir þó lýst yfir, að ekki muni koma. Og rökrjett afleiðing þess er sú, að jeg greiði atkv. á móti frv., ef ekki verður samtímis ákveðið með reglugerð innflutningsbann á skaðlegum og óþörfum vörutegundum.