08.04.1921
Neðri deild: 38. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (3186)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Flm. (Jakob Möller):

Hv. þm. Ak. (M. K.) situr enn á sínum sama trjehesti og ber fótastokkinn, og er ekkert við því að segja, ef hann hefir ánægju af því, en hitt verður hann að fyrirgefa, þó enginn taki það alvarlega, og þess vegna þarf jeg ekki að svara honum. Hins vegar vildi jeg gera stutta athugasemd við orð hæstv. atvrh. (P. J.), þar sem hann sagði, að þegar væri úr því skorið, hverja heimild stjórnin hefði, eða teldi sig hafa. En þetta er rangt og nægir þar að benda á gang málsins undanfarið, því að dagskrá mín viðvíkjandi viðaukalögunum var feld, og ummæli hæstv. ráðherra þá, um það, að vel geti komið fyrir að gripa þyrfti til víðtækari ráðstafana. En ef heimildin er ákveðin nú, og í raun og veru aðeins bundin við óþarfa, ætlar hann þá að gera þær viðtækari ráðstafanir í heimildarleysi, eða hvað,

Hins vegar erum við hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) að mestu sammála, að mjer skildist um nauðsyn þess að ákveða línurnar skýrar en nú er. Og það er aðalatriðið fyrir mjer, og því vænti jeg þess, að hv. deild leyfi málinu áfram.