08.04.1921
Neðri deild: 38. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (3191)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Pjetur Ottesen:

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg vildi segja, út af till. þeirri, sem fram hefir komið um að vísa frv. þessu til viðskiftamálanefndar.

Jeg get ekki betur sjeð, en að það hafi enga þýðingu. Nefndin hefir þegar tekið afstöðu til máls þessa, og því til sönnunar vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr nál. á þskj. 158: „Það hefir orðið að samkomulagi í nefndinni að fallast á það, að heimildarlögin frá 8. mars 1920 hjeldust í gildi fyrst um sinn, en með því skilorði, að „óþarfur varningur“ í þeim lögum merki einungis óþarfar vörutegundir, en alls ekki nauðsynlegar vörur, þótt landsstjórninni þyki óþarft að flytja þær til landsins eftir þeim kringumstæðum, sem kunna að vera fyrir hendi í einhverju einstöku tilfelli. Eftir því sem nefndin vill, að þau lög sjeu skilin, hefir þá stjórnin samkvæmt þeim heimild til að banna eða takmarka með reglugerð innflutning á óþörfum vörutegundum, sem yrðu taldar upp í reglugerðinni.“

Nú skil jeg ekki, að nokkrum blandist hugur um það, að þær vörutegundir, sem stjórnin hefir talið upp, sjeu, miðað við ástandið eins og það er, óþarfavörur. Jeg held því, að nefndin hafi ekki einasta tekið ákvörðun um það að koma ekki fram með frv. eins og þetta, heldur samþ. að eira því, að þessi heimild yrði látin standa, og lagt það á vald stjórnarinnar, hvort hún notar heimildina eða ekki, innan þeirra takmarka, sem í nál. getur. Þess vegna hlýtur það að mega skoðast sem móðgun við viðskiftamálanefnd, ef hv. deild ætlar að fara að þröngva þessu frv. upp á nefndina, þar sem hún er búin að gera sínar till. um þetta mál. Að vísu voru nokkuð skiftar skoðanir um það í nefndinni, hvern árangur þessi takmörkun á innflutningi bæri, en það voru allir sammála um það að leggja framkvæmd laganna á vald stjórnarinnar innan þeirra takmarka, sem jeg nefndi.