15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í C-deild Alþingistíðinda. (3199)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Sveinn Ólafsson:

Jeg er búinn að gleyma nær því öllu, sem sagt var gegn dagskrá minni við fyrri hluta þessarar umr. og býst því við að ummæli mín nú fari nokkuð fyrir ofan garð og neðan. En vegna þess, að önnur dagskrá er komin fram, sem jeg felli mig betur við, tek jeg mína aftur og óska, að hún komi ekki til atkv.

En þó að jeg taki dagskrána aftur, þá er það ekki vegna þeirra andmæla, sem hún sætti hjer í deildinni; þau voru að mínu áliti út í hött töluð og gátu því ekki haft áhrif á afdrif dagskrárinnar.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) fann dagskránni það til foráttu, að hún lýsti vantrausti á stjórninni. Mjer kom það á óvart, að hann skyldi finna að þessu, því jeg hjelt hann engan stjórnarvin. Það brá líka svo við, þegar einhver benti honum á, að hann yrði að vera með dagskránni, að hann fór í gegnum sjálfan sig og sagði, að í dagskránni feldist traust til stjórnarinnar.

Þessi hv. þm. (M. J.) lagði áherslu á það að nema úr gildi lögin frá 8. mars og alt það, sem aftraði innflutningi hingað. Hann komst að niðurstöðu, sem jeg á erfitt með að skilja. Hann hjelt því fram, að eðlilegi hemillinn á innflutningi ætti að vera kaupgetuleysi almennings. Hann vill þess vegna, að öllu viðskiftabralli sje haldið áfram taumlaust og látlaust; vill lofa því að leika lausum hala, þar til það hefir þurausið allar tekjulindir almennings. Stefna hans er að láta alt fara eins og verkast vill, og gera enga tilraun til þess að bæta úr þeirri gjaldeyrisþörf, sem nú þjakar íslenskum almenningi. Jeg á bágt með að skilja, að þetta sje mælt í fullri alvöru, og ef innflutningshöft geta bætt að nokkru úr gjaldeyrisskortinum — og það er skoðun margra manna — þá skil jeg ekki mótspyrnuna gegn þeim, og leyfi mjer að gera ráð fyrir, að eitthvað búi þar að baki.

Eins og jeg tók fram í upphafi, hefi jeg að mestu gleymt andmæhun háttv. þm. frá fyrri hluta umr., en þó man jeg það, að hv. þm. Barð. (H. K.) stóð upp og andmælti mjer að nokkru. Jeg held, að mótmæli hans hafi ekki verið ýkjakröftug, eða brýn ástæða fyrir mig að svara þeim. Hv. þm. (H. K.) mintist eitthvað á það, að jeg vildi hefta innflutning á niðursoðinni mjólk, og taldi það mikla goðgá, og hann bar það fyrir sig, að mjólkurgripir hjer væru lítt mjólkandi, og veitti því ekki af erlendri mjólk. Mjer kom þetta hálfkynlega fyrir, því að jeg hafði heyrt, að Barðaströnd væri búsælda sveit, og átti bágt með að trúa því, að þar væru tómar horskjátur og blindspena beljur. En jeg hlýt að trúa, úr því að hv. þm. (H. K.) hefir gefið þessar upplýsingar.

Jeg veit, að talsvert er eftir af togstreitu um þetta mál, og vil því ekki fjölyrða frekar, til þess að þeir geti komist að, sem þurfa að láta ljós sitt skína á frjálsu verslunina svo nefndu. En jeg vil endurtaka það, til þess að ekki komist að misskilningur, að jeg tek dagskrá mína aftur og vona, að þeir, sem höfðu hugsað sjer að greiða henni atkv., snúi fylgi sínu að dagskrá hv. þm. Ísaf. (J. A. J.).