15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í C-deild Alþingistíðinda. (3211)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi vel tekið eftir því, að þess er getið í greinargerð frv., að það ætti þá heldur að veita stjórninni aðra heimild. En það var ekki aðaltilgangurinn. Aðaltilgangur frv. var sá að fella heimildina frá 8. mars f. á. úr gildi, en ef það tækist ekki, þá var það einskonar varaskeifa, að þingið teldi þá upp þær vörutegundir, er banna skyldi.

Þetta er nokkuð svipað því, sem átti sjer stað, er fjáraukalögin voru hjer til umr. Þá kom fram till. um að fella einn liðinn þar niður, nefnilega eftirlaun Sigurðar Jónssonar, en ef það næði ekki fram að ganga, þá að lækka fjárhæðina.

það er alveg rjett hjá hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.), að hann lýsti því hjer áður við umr., að hann vonaði, að stjórnin notaði ekki heimildina frá 8. mars. En eftir yfirlýsingu stjórnarinnar á nefndarfundi, þá held jeg, að hann hafi þó ekki getað búist við öðru, en að stjórnin notaði heimildina.