09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í C-deild Alþingistíðinda. (3217)

104. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi

Flm. (Stefán Stefánsson):

Þetta er í annað sinn, sem þetta mál kemur til umr. hjer á Alþingi, því á Alþingi 1919 fluttum við þm. Eyf. þetta frv. ásamt allítarlegri greinargerð frá bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar og „útdrætti“ úr fundargerð hjeraðsfundar Eyjafjarðarprófastsdæmis. Mælir fundurinn þar með því, að bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar verði veitt leyfi til þess að kaupa prestssetrið Hvanneyri og kirkjujörðina Leyning, með þeirri takmörkun, að presturinn hefði nægileg jarðarafnot.

Enn fremur lágu þá fyrir þinginu eindregin meðmæli biskups með sölunni. En þrátt fyrir þetta fór það nú svo, að málinu var vísað til stjórnarinnar samkvæmt till. allshn. Nú hefi jeg, eins og jeg tók fram í upphafi, aftur leyft mjer að flytja þetta frv. eftir beiðni Siglfirðinga og í samráði við hæstv. forsrh. (J. M.). Um ástæðurnar fyrir frv. hefi jeg vísað til greinargerðar, er fylgdi því 1919, en sökum þess, að þær eru alllangt mál, og því talsverð fyrirhöfn — og að því er mjer virðist óþörf — að láta endurprenta þær, þá hefi jeg slept því.

Ástæðurnar, sem liggja til þess, að Siglfirðingar biðja um þessi kaup, eru þær, sem nú greinir: 1. ástæðan er sú, að bæjarstjórnin og bæjarfjelagið þurfa að hafa full umráð fyrir byggingu húsa. Nú er þessu þannig fyrirkomið, að presturinn á Hvanneyri getur mælt út þar, sem hann vill leigja, og aðeins þeim, sem hann kýs að leigja, og þá auðvitað þau svæði, sem hann telur sjer hagkvæmast að leigja, án tillits til þess, hvort þetta kann að vera heppilegt í tilliti til húsaskipunar. Ýmiskonar atvinnurekstri gæti hann neitað um nauðsynlegt land, enda þótt hann væri til mikilla framfara fyrir bæjarfjel. í stuttu máli sagt, gæti gert ýmsum fyrirtækjum mjög erfitt fyrir, og gæti það leitt til mikils tjóns fyrir bæjarfjelagið. Þessi umráðarjettur prestsins getur því, og mundi þráfaldlega leiða til hins mesta vanda og óþæginda fyrir margháttaðar framkvæmdir bæjarfjelagsins.

Önnur ástæðan fyrir frv. þessu er sú, að Siglfirðingar verða að auka jarðræktina í kringum kaupstaðinn, svo að mjólkurframleiðslan aukist, sem er beinlínis skilyrði fyrir vexti bæjarins. Þetta verða þeir að gera, næstum því hvað sem það kann að kosta, því eins og sakir standa er mjólkurskorturinn mjög tilfinnanlegur, og mundi auðvitað verða það enn meir, þegar bæjarbúum fjölgar.

Þriðja ástæðan er, að kaupstaðnum er hin mesta nauðsyn á því að fá ákveðið beitiland fyrir búpening kaupstaðarbúa. Nú hafa þeir undir högg að sækja með beit í landi þessara kirkjujarða, og auðvitað getur presturinn hve nær sem er, bannað öll afnot lands þessa, og þó búast megi við, að sá prestur, sem nú er, geri það eigi, þá má vel fara svo, að það verði gert síðarmeir.

Fjórða ástæðan er sú, að hagnýting og umráð jarðanna eða landsins á meira að vera almenningi til hagsmuna og gagns heldur en einstökum mönnum, og það því heldur, sem þeir þarfnast eigi landsins eins. Er það líka sennilegt, að enda þótt prestur eigi hjer hlut að máli, þá muni hann samt hugsa mest um það að hafa sjálfur sem best not af jörðinni. Er það ekki nema eðlilegt og mannlegt.

Fimta ástæðan er sú, að salan fyrirbyggir framv. hugsanlegar deilur, er rísa kynnu framvegis milli prestsins og bæjarbúa út af óhjákvæmil. ágangi búpenings bæjarbúa á þessar jarðir. Þarf eigi að draga það í efa, að út af ágangi þessum gætu risið margs konar deilur og misklíðarefni, eigi síður en milli nágranna í sveitum, nema ef fremur væri. Þarf eigi að vekja athygli á því, hversu þannig löguð mál eru oft hvimleið og erfið viðureignar.

Loks vil jeg nefna eina ástæðu enn, og hún er sú, að jafnskjótt og um hægist í atvinnurekstri og viðskiftamálum, þá ætlar kaupstaðurinn að leggja stórfje til hafnarbóta, en þá verður hann nauðsynlega að eignast landið, sem að liggur. Áætlaður kostnaður til þessa fyrirtækis er um 1/2 miljón kr., og út í slík mannvirki getur bærinn tæpast lagt, eigi hann ekki landið.

Allar þessar ástæður eru þannig vaxnar og svo mikilvægar, að engan þarf að undra, þótt Siglufjarðarkaupstaður leggi hið mesta kapp á að fá óháð not af því landi, sem að bænum liggur, og sem hann getur eigi án verið. Má í þessu sambandi benda á það, að allir kaupstaðir á landinu eiga lóðir sínar, að undanskildum 1/3 af lóðum Seyðisfjarðarkaupstaðar, sem bærinn á eigi, og svo Vestmannaeyjar, sem öldungis nýlega hafa hlotið kaupstaðarrjettindi. Sýnir. Þetta glögt, hvert lífsskilyrði bæirnir hafa álitið sjer þetta, og jafnframt sýnir þetta, að ekki hefir þótt gerlegt að standa á móti þessu. Mælir því öll sanngirni með að taka jafnt kröfur og bænir Siglufjarðarkaupstaðar til greina sem annara kaupstaða.

Að síðustu vil jeg geta þess, að í frv. er undanskilið sölunni alt það á jörðinni Hvanneyri, sem prestinum er nauðsynlegt að hafa til ábúðar og afnota, og sömuleiðis frítt mótak í jörðinni Leyningi. Það er því engan veginn þrengt svo að hans kosti, að hann þurfi undan að kvarta, því að engjar á Hvanneyri eru fremur ljelegar og litlar, og Leyningur er lítilfjörlegt afdalakot, en hentugt til sumarbeitar.

Skal jeg svo eigi fara fleiri orðum um frv. að sinni, enda mun mál að lofa hinum mörgu að komast að, sem beðið hafa um orðið í máli þessu.