09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í C-deild Alþingistíðinda. (3222)

104. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi

Forsætisráðherra (J. M.):

Eins og háttv. flm. (St. St.) tók fram, þá leitaði hann álits míns á frv. áður en hann lagði það fyrir deildina, og sagðist jeg fyrir mitt leyti ekki hafa neitt á móti því, að það næði fram að ganga. Jeg get líka getið þess, að kirkjustjórnin hefir fyrir sitt leyti ekkert á móti því. Jeg man ekki hvernig skjölin hljóða, sem hjer að lúta, en jeg þori að fullyrða, að biskup landsins er frv. hliðhollur og sjálfur presturinn á Siglufirði er fylgjandi frv.

Jeg á bágt með að skilja, hvað ákveðin mótstaða hefir risið hjer gegn þessu máli, nema ef vera skyldi sú ástæða, sem háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) bar fram. Það komu engin mótmæli frá þessum háttv. þm., þegar Blönduósi var selt landið, sem hann stendur á. Og háttv. þm. Dala. (B. J.) var með því fyrir skemstu, að Ísafjörður fengi keypt land, og þannig mætti telja mörg dæmi. Sjerstaklega undarlegt er það með hv. þm. Dala. (B. J.), sem seldi Akureyri Kjarna og altaf hefir verið því hlyntur, að bæjarfjelög ættu það land, sem staðirnir eru bygðir á. (B. J.: Seldi þm. Dala. Kjarna einnsaman?). Háttv. þm. Dala. (B. J.) seldi Kjarna á sínum tíma. Það var að vísu öðruvísi ástatt, miklu minni ástæðu, Kjarni liggur nokkuð frá Akureyri, en Siglufjarðarkaupstaður er bygður í Hvanneyrarlandi.

Það gerir mig ekki minst meðmæltan sölunni, að óhjákvæmilegt er að gera á Siglufirði dýran varnargarð fyrir sjávargangi, sem mundi kosta landið miklu meira, ef það ætti að framkvæma það, heldur en það mundi kosta bæjarfjelagið. Það mundi sjálfsagt kosta landið 100 þús. kr. nú, og ekki fyrirsjáanlegt, hve mikið það gæti orðið. Til þess að losna við það er búhnykkur að selja.

Ef háttv. þm. vilja ekki gera það fyrir Siglfirðinga, sem þeir gera umyrðalaust fyrir aðra, þá ráða þeir því náttúrlega. En jeg fyrir mitt leyti gæti tekið undir það með hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að ef bæjarfjelag Vestmannaeyinga færi fram á að fá eyjarnar keyptar, þá sæi jeg ekkert á móti því að verða við óskum þeirra.