09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í C-deild Alþingistíðinda. (3224)

104. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi

Sveinn Ólafsson:

Jeg sje ekki, að á þessu máli sje mikið vandhæfi, eða að afgreiðsla þess ætti að tefja lengi háttv. deild. Nýmæli er það ekkert, að bæjarfjelög sækist eftir landi til ræktunar og annara nota, og virðist mjer sem Siglfirðingum sje eigi síður nauðsyn á slíku landi en öðrum kaupstaðarbúum. Að vísu er jeg ekki hlyntur þjóðjarðasölu yfirleitt, en þegar svo stendur á sem hjer, að bæjarfjelag æskir kaupanna, þá er nokkuð öðru máli að gegna en þegar jörðunum er slept á frjálsan braskara markað, enda mun hagur af þessari ríkiseign tvísýnn, vegna þeirrar landbrotahættu, sem er á Siglufjarðareyri og sjáanlegt er, að ríkissjóður verður að kosta varnir við, ef jörðin heldur áfram að vera í hans eign.

Þetta er nú alment um málið að segja frá mínu sjónarmiði. En þótt jeg telji eðlilegt og rjett að unna bænum kaups á landi þessu, hygg jeg að frv. eins og það er, þurfi frekari athugunar. Það er gert ráð fyrir, að bærinn fái keypt Hvanneyrarland með Leyningi, en að undan verði skilið heimatún jarðarinnar, sem er með ákveðinni stærð og ummerkjum og haglendi fyrir gripi prestsins.

Jeg sje ekki, hvernig það má verða, að á opinberri eign verði þannig framvegis á jörðinni ótakmarkað land, þetta haglendi, ef hún verður seld, því að bersýnilega má teigja það svo langt, ef presturinn á margt gangandi fje, að enginn hagi verði þar handa öðrum gripum.

Mjer virðist því, að eitt af tvennu verði að gera, að afmarka landssvæði til hagbeitar handa gripum prestsins eða áskilja honum beit fyrir ákveðinn gripafjölda í óskiftu landi. Jeg get ómögulega kannast við, að hægt sje að selja eða meta land án landamerkja, eða rjettindi án takmarka.

Annars get jeg fallist á það, sem hæstv. forsrh. (J. M.) og hæstv. atvrh. (P. J.) sögðu, að sveitar- og bæjarfjelögin ættu að fá það land til umráða, sem þeim væri talið nauðsynlegt til landræktar og annars liggur þannig við, að full not verða að. Og þar sem talað hefir verið um að setja það að skilyrði, að bæjarfjelagið mætti ekki selja aftur einstökum mönnum, þá gæti verið rjett að tilskilja það hjer, vegna staðhátta, þótt ólíklegt sje, að bæjarfjelög fargi slíkum eignum. Jeg hygg þess muni ekki dæmi, að bæjarfjelag hjer á landi hafi fargað landi sínu þannig, nema þá til leigu, eins og eðlilegt og sjálfsagt er.