18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

38. mál, verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg veit, að þörf er á lögum um þetta efni, en jeg býst við, að erfitt verði að framkvæma þau. Hæstv. atvrh. (P. J.) gat þess, að erfitt væri að ákveða, hvaða ástand lifrarinnar væri átt við í síðustu málsgr. 2. gr., en áleit, að helst væri það skemd á lifrinni, ef vatn væri í henni eða sjór. En það getur verið svo um lifur, að hún sje orðin laus við allan sjó, en um næsta straum kemur enn á ný vatn úr henni. Jeg hefi haft á hendi lifrarkaup í 14–15 ár, keypt lifur að hausti og sett í föt, og á vorin tappað burt öllu vatni, en þegar hún hefir staðið enn á ný, hefir komið vatn úr henni aftur. Sje lifrin seld um stórstraum, er ógerningur að ná úr henni vatni, og þegar svo er, þyrfti að tilgreina hvað lifrin væri gömul, ef vel ætti að vera. Annars held jeg, að óheppilegt sje að hafa lifur fyrir fóðurbæti, því að þegar búið er að bræða úr henni lýsið, er ekki annað eftir en tægjur, og eru þær ekki meltanlegar nokkurri skepnu. Þær eru þá svo harðar, að þær eru notaðar í gangstíga kringum bræðsluhúsin.

Jeg hefi saknað þess í þessu frv., að ekki er minst á síldarkökur sem fóðurbæti. Þegar búið er að pressa lýsið úr síldinni, verða eftir kökur, sem síðan eru þurkaðar og malaðar, og þá fæst síldarmjöl. Fyrir vestan eru þessar kökur álitnar betri fóðurbætir en mjölið, enda eru þær ódýrari og þægilegri til gjafar skepnum.

Jeg mun ekki koma með brtt. við frv., en jeg vildi benda á, hve erfitt er að ákveða gæði lifrarinnar, og ef vel ætti að vera, þyrfti að tilgreina hverskonar lifur seld væri, ýsu, flyðru, þorska eða hákarlalifur. Auk þessa vildi jeg aðallega vekja athygli á því tvennu, að lifrin er óheppilegt skepnufóður, og er betra að láta þá, sem lýsisbræðslu hafa, fleyta hana og selja lýsið; ennfremur, að síldarkökur eru heppilegri en síldarmjöl, því þar sparast þurkun og mölun, því hvorttveggja er ónauðsynlegt um fóðurbæti.