25.04.1921
Neðri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í C-deild Alþingistíðinda. (3262)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg skal ekki vera sjerlega langorður. Í nál. minni hluta samvinnunefndar peningamálanna eru dálitlar aðfinningar í garð stjórnarinnar fyrir undirbúning hennar undir mál þetta. Í sjálfu sjer furða jeg mig ekki á þessu. Það mundi seint verða gert í þessu máli, sem ekkert yrði að fundið, eða öllum líkaði. Þar að auki hefir margt komið í ljós síðan, sem haft hefir þær afleiðingar, að æskilegt hefði verið, að viðbúnaður hefði verið meiri. Þó eru aðfinningar þessar ósanngjarnar og ekki rjettar, þar á meðal það, að samkomulag hafi eigi fengist við stjórnir bankanna. Því undirbúningur þessa máls, og þar með samningaumleitanir við og milli bankanna, byrjuðu í haust í Kaupmannahöfn í utanför fjármálaráðherrans. Var þar þá einnig honum til aðstoðar íslenski sendiherrann og Krabbe skrifstofustjóri. par var Kaaber bankastjóri Landsbankans þá staddur ytra, og sömuleiðis einn af bankastjórum Íslandsbanka, Tofte. Þarna var því gott tækifæri til að ræða málin yfirleitt, og hefir áður verið skýrt frá því öllu hjer í þinginu, enda hygg jeg, að málin hafi verið nokkru ljósari eftir þetta en áður. Og í samræmi við þetta varð það niðurstaðan hjá stjórninni að snúast einkum að því að koma skipulagi seðlaútgáfunnar í viðunandi frambúðarhorf. Annars hefir það orðið máli þessu í heild sinni nokkur þröskuldur, að ekki hefir tekist að fá dönsku bankaráðsfulltrúana heim hingað, þó reynt hafi verið. Þeim var ekki úr að aka. Hins vegar liggur fyrir nýfengin yfirlýsing um það, að framkvæmdastjórar Íslandsbanka hjer hafi fult umboð. En svo hefir það dregið úr þessu þar á ofan, að einn bankastjórinn hefir verið hættulega veikur og annar mikið lasinn. Annar þeirra hefir því haft frí frá bankanum síðan 1. ágúst, en hinn verið nokkuð frá verkum og einkum rjett fyrir þingið í vetur. Þetta gerði stjórninni mikla örðugleika. Eigi að síður var það svo, að stjórnin gat náð samkomulagi við hann um helstu atriðin og í raun og veru var ekki ágreiningur nema um lítilfjörlegt atriði viðvíkjandi gjaldi því, sem á Íslandsbanka skyldi hvíla til ríkisins, eftir að fyrirkomulag það, er stjórnarfrv. inniheldur, væri komið á. — Þá kemur aftur samkomulagið við Landsbankann. Stjórnin lagði fyrir Landsbankastjórnina, til umsagnar og álita, uppástungu, sem til orða hafði komið í Kaupm.h., um að ríkið gæfi út alls 3 milj. seðla handa Landsbankanum, og þetta var fyrir miðjan desember í vetur. Stóð nú lengi á því, að stjórn Lanksbankans treysti sjer til að segja álit sitt um þetta, og það var komið fram yfir miðjan janúar, þegar stjórnin gat átt tal við Landsbankastjórnina um þetta. Þá fyrst komst rekspölur á málið. Þá urðu samræðufundir með landsstjórn og bankastjórn, og uppkast af frv. samið, og eins og sjest á brjefi frá bankastjórninni, frá 26. jan., hafði bankastjórnin athugað uppkastið og gert athugasemdir við það. Er þar eiginlega einungis eitt atriði, sem maður getur sagt að orðið hafi að ágreiningsatriði milli landsstjórnar og bankastjórnarinnar. Og jeg ætla að leyfa mjer, með samþykki forseta, að lesa upp kafla úr brjefi þessu. Það er rjett áður búið að tala um fyrirkomulagið á yfirfærslunni. Þar stendur svo:

„Skyldi, mót von, þurfa að gefa út meiri seðla á afhendingartímabilinu, er hefst þegar fyrnefnd lög ganga í gildi, en úti eru samkvæmt ofangreindum fyrirmælum, þá skal landið gefa þá út.“

Með öðrum orðum, að það sem seðlaþörf væri fram yfir lágmark, sem þarf af seðlum í vor, skyldi gefast út af landinu eða ríkisstjórninni. Þetta atriði gat stjórnin ekki aðhylst, en að öðru leyti lagaði hún frv. sitt í þá átt, sem athugasemdir Landsbankastjórnarinnar fóru.

Stjórninni var það ljóst, að áskildi hún sjer seðlaútgáfuna á þann hátt sem bankastjórn Landsbankans ákveður þarna þessi 2 fyrstu ár, þá hefði stjórn Íslandsbanka talið bankann óstarfhæfan. Síst af öllu þegar bankinn var í „krisis“, gat hann með nokkru móti mist það þanþol, sem nauðsynlegt var til þess að halda viðskiftum bankans uppi og halda sínum viðskiftavinum. Þess vegna gat stjórnin ekki fylgt með öllu Landsbankanum.

Jeg hef þá skýrt frá undirbúningi málsins, og jeg vona, að allir geti sjeð, að úr því að stjórnin varð að leggja eitthvað fyrir þingið í þessu efni, þá var ekki hægt að leggja það fyrir, sem stjórnir beggja bankanna væru fyllilega samþykkar, síst þegar þess er gætt, að samkomulagið milli þessara tveggja stofnana er ekki ávalt upp á það besta. Og mörg atriði í þessu máli eru svo löguð, að stjórninni er ekki leyfilegt að tala um þau opinberlega. En það er satt, að stjórnin lagði ekki annað í þessu Íslandsbankamáli fyrir þingið en þetta frv. Stjórninni var, eins og frsm. (Jak. M.) rjettilega gaf í skyn, full vorkunn í þessu. En þegar hann segir, að stjórnin hafi látið svo um mælt, að úrlausn seðlaútgáfunnar mundi nægja til þess að koma bankanum úr kreppunni, þá er það ekki rjett með farið. Það nægir þar að benda á það, sem stendur í athugas. stjórnarinnar við frv., sem jeg vil með leyfi forseta lesa upp:

„Eins og nú stendur er Íslandsbanki bundinn svo miklum og margvíslegum viðskiftum við allan þorra landsmanna, að það verður að telja hina brýnustu nauðsyn, að hann geti starfað áfram og haft það lánstraust, sem unt er, og eftir því sem næst verður komist í þessu efni verður ekki fyrirkomulag frv. því til fyrirstöðu, að hann hafi sama lánstraust og áður en hann komst í kreppu þá, sem hann hefir verið í um hríð.“

Þetta er nú alt, sem Landsbankastjórnin ljet um mælt, og jeg hefi ekki í framsögu minni tekið sterkara til orða. Stjórninni var ljóst, að þetta væri undirstaðan til þess, að hann gæti gert eitthvað af eigin rammleik, t. d. að fá lánstraust hjá viðskiftabanka sínum, en þá var það yfirlýst skilyrði, 1) að varanlegt skipulag yrði að koma á seðlaútgáfurjettinn, og 2) að nema yrði úr gildi þá takmarkalausu skyldu að yfirfæra fyrir Landsbankann, hvort sem bankinn gæti það eða ekki. því var þetta skilyrðið fyrir því, að bankinn kæmist að einhverju leyti á flot.

Þá hefði kann ske mátt segja, að stjórnin hefði átt að undirbúa það, að meira hefði mátt gera en þetta. En eins og frsm. (Jak. M.) gaf í skyn, þá var ástandið skárra, þegar stj.frv. var í smíðum, og svo horfurnar á því, hvað bankinn gæti gert af eigin rammleik, betri. Og stjórnin vonaði, að Íslandsbanka tækist, með þeim breytingum, sem stjórnarfrv. innihjeldi, að rjetta hann allmjög við. En ástandið versnaði á ýmsan hátt, og þær vonir urðu einatt minni, og stjórnin komst að þeirri niðurstöðu, eins og aðrir, að þetta eitt mundi ekki vera nægilegt. En úr því að komið var fram á þing, þá þótti rjett að láta það íhuga málið og hafa frumkvæði í því. Stjórnin hafði hvorki heimild til þess að ábyrgjast lán fyrir bankann eða skjóta inn í hann fje, hvort sem var.

Jeg skal þá geta þess, að í jan. fór Kaaber bankastjóri utan til þess að þukla fyrir sjer um peningamál, og hann kom ekki aftur fyr en eftir að stjórnin hafði búið málið til fulls undir þingið. En það var eðlilegt, að hann mundi verða sá ráðunautur, er stjórnin helst hefði, um fjárlán í útlöndum. Og þó að stjórnin hafi ekki gert neinar till. lengra en um seðlaútgáfurjettinn, þá er það fráleitt, að hún sje því fráhverf, að reynt sje að rjetta bankanum hjálparhönd með öðru móti. Þess vegna er það gleðilegt, sem hv. frsm. (Jak. M.) lýsti yfir, að þótt ágreiningur hefði orðið í nefndinni um ýmislegt, þá hefðu menn allir verið einhuga um það að bjarga Íslandsbanka úr fjárkreppunni. Og jeg er viss um það, að nefndin hefði vel getað átt samvinnu við stjórnina í þessu máli, ef hún hefði óskað og viljað. En um það skal jeg ekki fjölyrða nú.

Hv. frsm. (Jak. M.) talaði talsvert um þetta frv., sem liggur fyrir í Ed., og sagði, að í rauninni væri það uppsuða úr frv. stjórnarinnar, en að sumu leyti hefði það annan tilgang. Já, að því leyti, að frv. leggur áherslu á það, að við náum yfirráðum yfir hlutafje bankans, jafnframt því að ráðstafa seðlaútgáfurjettinum á svipaðan hátt eins og gert er í frv. stjórnarinnar. Ætlunarverkið verður því tvöfalt, auk þess að bjarga bankanum úr kreppunni. Stjórnin rannsakaði í haust ráð til þess að ná yfirráðum yfir bankanum á þann hátt að fá kaup á meiri hluta hlutabrjefanna. En þá var ekki hægt að ná þeim með neinum við unandi kjörum. Hitt kom ekki til orða í stjórninni að fá lánsfje og skjóta því inn í bankann. Og það má vel segja, að með því að ráðstafa seðlaútgáfurjettinum eins og gert er í stj.frv. er þó ekki náð yfirráðum yfir bankanum, heldur einungis seðlaútgáfurjettinum. Það hafa komið fram mismunandi skoðanir hjá hv. þm. á þessu máli, og virðist mjer gerð tilraun til þess að sameina þær í frv. hv. Ed. Og það væri undarlegt, ef smávægileg fyrirkomulagsatriði ættu að verða því til fyrirstöðu, að þeim tilgangi, sem allir hafa, 1) að hjálpa bankanum, og 2) að ná seðlaútgáfurjettinum, yrði náð í fullu samkomulagi við bankann. Og þess vegna er það, að stjórnin getur ekki felt sig við þetta bráðabirgðafrv., sem hjer liggur fyrir. Þessum tvenna tilgangi, sem jeg hefi nú minst á, verður náð með því einu móti, að bankinn geti nú haldið áfram störfum sínum. En með bráðabirgðafrv. er engin trygging fengin fyrir því, jafnvel miklu meiri líkur til þess, að hann þyrfti að loka innan skamms.

*) Vantar niðurlag, sem ekki verður úr bætt. Jak. M.