25.04.1921
Neðri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (3263)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Eiríkur Einarsson:

Þótt frumvarp það, sem hjer er sjerstaklega til umræðu, ræði einkum um bráðabirgðaskipulag á seðlaútgáfurjettinum og hvernig því skuli komið fyrir, þá er það eigi ætlun mín að taka ákvæði þess frv. til sjerstakrar athugunar að þessu sinni, og það því síður, er jeg mun flytja breytingartillögu við frumvarpið og jafnframt því láta í ljós, hvað mjer þykir athugavert við það, er til annarar umræðu kemur. — En þar sem nú eru einnig borin fram á þingi 2 önnur frumv., er bæði hafa það að markmiði að koma frambúðarskipun á seðlamálið, annað þeirra stjórnarfrumvarpið, er peningamálanefndin hefir haft til athugunar, og meiri hluti hennar sagt álit sitt um, hitt frv. borið fram í efri deild af háttv. 8. þingm. þar, þá var það einkum aðstaða mín og skoðun um þessar 2 stefnur, bráðabirgða- og frambúðarskipun seðlamálsins, er jeg vildi gera grein fyrir.

Þegar litið er til hins mikla vanda, sem nú er komið í með alla fjárhagsafstöðu þjóðarinnar, ekki síst hvað snertir gjaldeyrisvandræði gagnvart öðrum ríkjum og álitshnekki, er viðskiftalíf vort hefir beðið erlendis nú hin síðustu misseri, liggur það í augum uppi, að á bak við þau ákvæði, er liggja beinlínis í orðum seðlaútgáfufrv. stjórnarinnar, hljóti landsstjórnin einnig að hafa hugsað sjer einhvers konar lausn — að meira eða minna leyti — á fjárkreppumálum landsmanna, og það því fremur sem lítt verður sjeð, að hafist sje handa að öðru leyti til að leita nauðsynlegra úrræða í þeim efnum. Og þetta verður að teljast aðalatriðið. Þótt það væri í sjálfu sjer gott og hagkvæmt að fá það fyr en síðar hreinlega ákveðið, hvernig Íslandsbanki lætur seðlaútgáfurjettinn af höndum, verður það þó í meðferð málsins og við úrslit þess, þegar það er tekið með í reikninginn hvernig ástatt er, nærri aukaatriði hjá hinu, hvaða gjaldmiðilsmöguleika, hvaða „kredit“ þjóðinni til handa úrlausn seðlamálsins á grundvelli frumvarps sem þess, er stjórnin hefir lagt fyrir þingið, mundi hafa í för með sjer.

Vildi jeg athuga þetta frá ýmsum hliðum, og þótt hæstv. stjórn komi því að líkindum svo fyrir, að þetta frv. hennar verði ekki meir á vegi þingsins, er þó óhjákvæmilegt að minnast nokkuð á það, því að íhlutun og aðgerðir stjórnarinnar um peningamálin eru að miklu leyti tvinnuð saman við það.

Þar sem stjórnarfrumvarpið í flestum greinum verður að skoðast sem heimildarákvæði handa Íslandsbanka, hvaða seðlaútgáfu hann skuli njóta og hvernig sá rjettur takmarkist, hlýtur öllum að vera það ljóst, að undirbúningur þess máls og tillögur til ákvörðunar verða að byggjast á samningi, þar sem gengið sje úr skugga um, svo vel sem unt er, hverra fjárhagsumbóta og hvers öryggis í peningamálum landsmenn geti vænt frá bankans hálfu gegn slíkum rjettindum, ef lögin ganga fram í þessum sniðum, og þá jafnframt hvort bankinn sje nokkurn veginn samþykkur frv. eins og það er borið fram. En hvað þetta snertir er málinu mjög ábótavant.

Í undirbúningnum verður eigi sjeð, að stjórninni hafi tekist að fá samþykki og þá síst samræmissamþykki rjettra samningsaðilja um það, er máli skiftir. Því er alls ekki að heilsa um sjálf ákvæði frv., og því síður um það, sem er mergur málsins, hin fjárhagslegu úrræði, sem samþykt frv. ætti að hafa í för með sjer. Undirbúningur frv. mun ekki hafinn fyr en eftir síðasta aðalfund Íslandsbanka, og það er kunnugt, að síðan hefir bankaráðið eigi heldur haft fund með sjer. Er því eigi fyrir hendi neitt samstætt álit þeirra, er fyrst og fremst eru rjettir samningsaðiljar af bankans hálfu um frumvarpið, enda hefir stjórnin látið þess getið í aths. við frv., að málið komi til endanlegs samþykkis eftir á, þegar aðalfundur bankans verður, en Alþingi búið að hafa það til meðferðar. En það hefði verið nauðsynlegt, að þeir sem ráða bankanum, hefðu einnig og sem ótvíræðast látið í ljós álit sitt og tillögur um málið, áður en til þingsins kasta kom.

Í athugasemdum stjórnarinnar við frv. segir, að það fyrirkomulag, er frv. ráðgerir, hafi náð samþykki beggja bankanna í flestum aðalatriðum. Eftir því sem fram er komið við athugun og rannsókn málsins í nefndinni, verður þetta eigi sagt. Af þeim tveim framkvæmdastjórum Íslandsbanka, er nefndin hefir átt kost á að leita álits hjá um málið, hefir annar þeirra, og það sá sem er Íslendingur, beinlínis ráðið frá að samþykkja frv., og var því þannig algerlega ósamþykkur. Hinn bankastjórinn var hins vegar eigi ósamþykkur frumvarpinu nema í nokkrum atriðum (aðallega um greiðslu bankans til landssjóðs); en jafnframt kom það berlega fram í samtali nefndarinnar við bankastjórann, að einnig hann lagði þá merkingu í mikilvæg ákvæði frv., er hvorki samrýmast skoðun Landsbankans nje margra annara, er láta málið til sín taka, sem sje það, hver skuli gefa út þá seðla, er viðskiftaþörfin krefur á innlausnarárabilinu umfram hina fastákveðnu upphæð seðla, er Íslandsbanki afhendir með jöfnum hlutum árlega. Þar sem frv. sjálft sker alls ekki ótvírætt úr um þetta, er þar fyrirsjáanlegt deilumál um mjög verulegt atriði. — En þótt gert sje ráð fyrir, að frumvarpið væri lagað svo, að Íslandsbanki og þeir sem honum ráða, yrðu því samþykkir, það sniðið eftir þeirra höfði, hefir bankastjórnin gefið nefndinni þau svör, að ómögulegt sje, samt sem áður, um það að segja, hvort eða hvers lánstrausts bankinn geti væst erlendis.

Lánardrottinn og aðalviðskiftabanki Íslandsbanka erlendis, Privatbankinn í Kaupmannahöfn, hefir eigi heldur gefið neitt það í skyn, að þar sje trausts að vænta, að því er nefndin best veit, og er það í samræmi við svör bankastjóranna.

þegar nú þessu til viðbótar er litið á það, að stjórn Landsbankans, þeirrar stofnunar, er smámsaman er ætlað samkv. stjórnarfrv. að takast á hendur seðlaútgáfu í landinu með þeim rjetti og ábyrgðarhluta er því fylgir, telur slíka lagasetningu, sem hjer er um að ræða því að eins ráðlega, eða þessa leið til lausnar seðlamálinu farandi, að Íslandsbanki fái, meðal annars, framvegis hjá aðalviðskiftasambandi sínu erlendis, hæfilega „kredit“, eins mikla og undanfarið. En hver er til frásagnar um það á þessu stigi málsins? Það er líka auðsætt, hve miklu það varðar fyrir Landsbankann, eins og landsmenn sjálfa, að Íslandsbanki geti int af höndum skyldur sínar í viðskiftum við þjóðbanka vorn viðvíkjandi seðlaútgáfunni og öðru, er þá kemur til greina.

Jeg vildi einnig minnast á það, hvað ákvæði stjórnarfrv. um heimild handa Íslandsbanka til hlutafjáraukningar er laust í sjer og lítils nýtt. Bankinn hefir látið það í ljós, að hann hafi engin tök á slíku. Og fyrst alt ráð þessarar stofnunar er svona á reiki og mjer liggur við að segja tortryggilegt, þá finst mjer mjög varhugavert að ákvarða sig í fljótræði til þess, sem stungið hefir verið upp á, að ríkissjóður eða landsmenn sjálfir veittu bankanum þennan hlutafjárauka. Þótt útvegur tækist til þeirra hluta, er óvist, hvort því væri vel varið eða forsvaranlega með því að kasta því inn í stofnun, sem ekki er í meira áliti eða stendur fastari fótum en Íslandsbanki gerir nú. Hefi jeg minst á þetta hjer til þess að sýna, hve mikillar athugunar þarf við, áður en þingið bindur þjóðina með frambúðarákvörðunum í þessu máli.

Ef nú þeir, sem eru bjartsýnir á lánstraust og útvegu Íslandsbanka erlendis, vildu gera sjer vonir um, að hagur hans batnaði, næði frv. stjórnarinnar fram að ganga, þá er á það að líta, að bankinn er hlaðinn eigi svo litlum skuldum, alt að tug miljóna, og sumu vitanlega aðkallandi. Yrði hann fyrst að færa þetta í lag, ef hagur hans batnaði. Þyrfti bankinn því mikla .,kredit“ til þess, að hjálpar væri þaðan að vænta úr fjárkreppuörðugleikum landsmanna að öðru leyti, sem mest gætir í gjaldeyrisskorti þeirra til útlanda.

Jeg játa það fúslega, að frumvarp stjórnarinnar hefir sitthvað til síns ágætis, og þá fyrst og fremst það, að þar er stigið spor í rjetta átt, að auka gengi Landsbankans með því að koma seðlaútgáfurjettinum í hans hendur. Tel jeg því það frv. miklu skárra en frumvarp um seðlaútgáfuna, er borið hefir verið fram í háttv. efri deild. Í því frumvarpi er satt að segja fátt um fína drætti. Algert handahófsverk, lítilsiglt og með afsláttarkeim. En þótt stjórnarfrv. sje ekki nærri svo fráleitt, tel jeg alls ekki gerlegt að samþykja það á þessu þingi; er það af þeim ástæðum, er jeg hefi drepið á hjer að framan, undirbúningsleysi og lausatökum af hálfu stjórnarinnar; en handahófsúrlausn á því, er gilda skal til frambúðar, um seðlaútgáfurjettinn og önnur peningamál landsmanna, er óverjandi. Þar verður maður að eiga sem minst eftirkaup. Og eins og jeg hefi áður tekið fram, er lausn seðlaútgáfumálsins alls ekki lausn á peningavandræðunum; um seðlaútgáfu til innlendra nota væri tiltölulega auðvelt að leita úrræða, ef einungis væri um það að ræða, en þegar önnur hlið þess máls er ofin saman við lánstraust og viðskiftalíf þjóðarinnar gagnvart öðrum ríkjum, þá vandast það. Því stærra og ábyrgðarmeira sem málið er, því vandlátari verður sá, sem þar á hluta að, að vera um allan undirbúning.

Því er mjög á lofti haldið og það alveg rjettilega, að þjóðin eigi svo mikilla hagsmuna að gæta þar sem Íslandsbanki er, að varlega og vægilega verði að taka í málið. Einmitt af því, hve viðskiftalíf þjóðarinnar er háð bankanum, ríður svo mjög á að fara gætilega að öllu, er um þessa frambúðarskipun er að ræða. Og þótt þjóðin eigi mjög mikið undir því, að vel skipist um mál bankans, á hann þó enn þá meira undir þjóðinni, er hann rekur verslun sína við, og það einkum nú, er hagur hans stendur erfiðlega. Það er því mjög sanngjörn krafa, að rannsakað sje, hve mikils trausts sje að vænta þar sem bankinn er, áður en við byggjum framtíðarvonir okkar sjerstaklega á úrræðum og framkvæmdum hans. Þeir sem vilja nú, að lánstraust þjóðarinnar verði notað til þess að „hjálpa“ bankanum, og jafnvel að órannsökuðu máli, minna mig á þessa húsabyggingarmenn, sem reisa alls konar yfirbyggingar, og þær stundum rismiklar, ofan á gamla hjalla, sem þeir vita ekki nema sjeu grautfúnir. Þess konar byggingar þykja venjulega bæði ljótar og tortryggilegar. Þingið þarf að ganga úr skugga um, að sú stofnun sem hjer ræðir um, sje hvorki fúin nje feyskin, áður en það er lagt til málanna, að landið kosti þar yfirbyggingu.

Það er því samróma álit okkar meiri hluta nefndarmanna, að hjer eigi að fara varlega og skipa seðlaútgáfunni einungis til bráðabirgða, meðan betri undirbúnings verði leitað, þótt við hins vegar sjeum ekki á sama máli um fyrirkomulag þessa bráðabirgðaskipulags, eins og skýrt er frá í áliti okkar. En eins og jeg gat um í byrjun þessa máls, geri jeg síðar nánari grein fyrir afstöðu minni þar.

Allir eru á eitt sáttir um það, að nauðsynin sje mikil að bæta úr fjárkreppunni; en frumvörpin, sem liggja fyrir þinginu og miða við frambúðarskipun á seðlamálinu, bæta þar úr engu, ekki einu sinni bráðustu nauðsyn. Með slíkum frumvörpum er því alveg rent blint í sjóinn, og þeir sem kasta þannig færinu, eiga eins á hættu að slíta það, eins og að fá happadrátt á öngulinn. Það er og eigi annað sýnna en að stjórnin sje komin að rjettri niðurstöðu um þetta, og muni láta frumvarp sitt hverfa úr sögunni, og sannast þá á því málshátturinn: „Það er ekki ætilegur kálfur, sem aldrei hefir getað staðið.“ Verður ekki sagt um frumvarp stjórnarinnar, sje það svæft nú þegar, að það hafi nokkum tíma komist svo langt að geta staðið.