25.04.1921
Neðri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í C-deild Alþingistíðinda. (3264)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg vil fyrst svara fáeinum atriðum í ræðu hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), þeim, sem hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) hefir ekki svarað.

Um varnarræðu hans fyrir nefndina skal jeg ekki vera fjölorður. Aðeins benda á það, að sá sem afsakar sig, hann ásakar sig og hefir ekki góða samvisku.

Hv. þm. tók það rjettilega fram, að þetta frv. væri eina hljóðið, sem hefði komið frá nefndinni allan þann tíma, sem þing hefir setið, og er vert að taka eftir því, því að með því er mikið sagt. Annars var bæði hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) og hv. 1. þm. Árn. (E. E.) miklu spakari en jeg bjóst við, og sjá nú jafnvel ýmsa kosti á stjórnarfrv. Mun það stafa af því, að nú sjá þeir annað fóstur í hv. Ed., sem þeim er enn ver við. Og svo ramt kveður að um þetta Ed.frv., að það hefir verið þrautrætt hjer í þessari hv. deild grein fyrir grein, enda þótt alt annað mál sje hjer á dagskrá, og það meira að segja við 1. umr., og mun slíkt alveg eins dæmi í þingsögunni. Skal jeg ekki fara út í það mál nú, því að það liggur hjer alls ekki fyrir. En það gleður mig, að hv. þm. skuli nú sjá kosti á stj.frv., sem þeir áður voru algerlega blindir fyrir.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) viðurkendi, að þær vonir sem stjórnin hefði gert sjer um árangurinn af stj.frv., hefðu ekki verið tálvonir, þegar stjórnin samdi frv., þótt ástandið sje breytt í þessu efni nú. Hann er þá kominn á mína skoðun, sem hann ekki gat aðhylst áður.

Mig furðar ekki á því, að hv. þm. (Jak. M.) sjer ættarmót með 8-manna frv. í Ed. og stj.frv. Það er engin stór uppgötvun, því það eru margar greinar orðrjett teknar upp úr stj.frv. En það er alveg rjett hjá hv. þm., að stj.frv. er stórum mun betra heldur en þetta nýja frv.

Báðir hv. þm. (Jak. M. og E. E.) töluðu mikið um það, hvort aðalfundur Íslandsbanka myndi ganga að ákvæðum stj.frv., ef það væri samþykt hjer, og álösuðu stjórninni mikið fyrir að hafa ekki fengið samþykki fundarins fyrirfram. En hv. þm. áttu að vita, að það var ómögulegt að hafa frv. til svo snemma, en stjórnin útvegaði þær fullkomnustu líkur sem hægt var að fá, sem sje yfirlýsingu þess manns, sem fer með umboð meiri hluta hluthafanna. Hann lýsti því yfir, að hann væri frv. meðmæltur í flestum aðatriðum, og þó það sje ekki fullkomin lagasönnun fyrir samþykki aðalfundar, því slíka sönnun er ekki hægt að færa fyrir óorðnum hlut um, þá eru það svo sterkar líkur, að þær stappa næst sönnun. Það var farið eins að í þessu máli 1919 og var þá ekki átalið af neinum, vegna þess að allir vissu, að öðruvísi var ekki unt að fara að.

Þá spurðu báðir þessir hv. þm., hvaða þýðingu það hefði að koma endanlegu skipulagi á seðlaútgáfuna. Þetta hefir þá þýðingu, að með því er hægt að forðast endalaust þjark og rifrildi og þó fyrst og fremst: Það er nauðsynlegt til að bankinn geti notið lánstrausts erlendis. Fyrir því hefi jeg orð bankastjórans sjálfs. Það er hjálp til handa bankanum til þess að hann geti hjálpað sjer sjálfur. Úr því jeg fór að tala um þetta 8-manna frv. úr Ed., þá vil jeg leiðrjetta eina af mörgum rangfærslum hv. þm. (Jak. M.). Hann sagði, að í frv. væri ekkert ákvæði, sem trygði það, að Íslandsbanki hjeldi ekki öllum rjettindum eftirfrv., án þess að ganga að kvöðum þess. En í síðustu gr. frv. er sagt með skýrum orðum, að heimild bankans falli burtu, ef hluthafafundur samþykki ekki að gangast undir frv. Jeg þori að hafa það eftir þeim af bankastjórum Íslandsbanka, sem mestu hafa ráðið síðustu ár, að ef ekki fáist endanleg lausn á þetta mál nú, þá geti bankinn ekki búist við að fá það lán erlendis, sem hann ekki má án vera.

það er nú komið á daginn, að hv. peningamálanefnd er klofin, að minsta kosti í þrent. Sumir vilja óbreytt ástandið sem er, að því er virðist, eins og hv. 1. þm. Arn. (E. E.), svo eru átta þm. í Ed., sem flytja frv. saman og í þriðja lagi eru hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) og einhverjir með honum.

Mjer þykir það hálfundarlegt um hv. 1. þm. Árn. (E. E.), að hann vill ómögulega láta yfirfærsluskyldu Íslandsbanka fyrir Landsbankann falla niður, þó honum megi vera það kunnugt, að stjórn Landsbankans hefir gengið inn á það.

Hv. sami þm. sagði, að það vantaði „samræmissamþykki“ í stj.frv. Jeg skildi það svo, að hann ætti við samþykki bankastjóranna. (E. E.: Ekki þannig). Þá er það óskiljanlegt, hvað hann meinar. (E. E.: Jeg sagði, að það vantaði samþykki rjettra hlutaðeigenda). Það skýrist lítið við það, ef bankastjórarnir eru ekki þeir rjettu hlutaðeigendur.

Einn af bankastjórum Íslandsbanka vill hafa alt eins áfram og nú er. En hann er sá aleinasti sem það vill. Jeg veit, að sá bankastjórinn, sem núna er nýkominn heim, er meðmæltur stj.frv. Annars er rjett að fara ekki langt út í hans skoðun, því að hann hefir engin áhrif á úrslit málsins á hluthafafundi.

Hv. þm. (E. E.) sagði, að það væri óvíst, hvort bankinn fengi lán erlendis, þó stj.frv. væri samþykt. Jeg hefi þó tekið það fram áður, að bankastjóri Privatbankans sagði við mig í haust í áheyrn fleiri manna, að hann vildi veita Ísl.banka eins mikið lánstraust og fært væri eftir venjulegum bankareglum. Vitanlega fær enginn banki í víðri veröld ótakmarkað lán, og þá getum vjer ekki heldur búist við því.

Hv. þm. (E. E.) sagði, að margt væri gott í stj.frv. Þó vill hann ekki láta það ná fram að ganga, og hefir ekkert annað í staðinn.

Jeg hefi áður tekið það fram, að ef aðalfundur samþ. ekki frv., þá fellur það burt, en gildir alls ekki áfram, eins og hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) gaf í skyn.

Þá sagði hv.þm. (Jak. M.), að bankinn ætti meira undir okkur heldur en við undir honum. Jeg hjelt, að bankamir væru til fyrir þjóðina, en ekki hún fyrir þá. Jeg hefi altaf heyrt, að bankar væru svo mikilsverðar stofnanir, að það riði á miklu fyrir þjóðina, að þeir standi sem best. Hann vill endilega framlengja það vandræðaástand, sem nú er, um heilt ár. En það er vegna okkar sjálfra, en ekki Íslandsbanka, að verið er að koma skipulagi á. Þessu hefir oft verið blandað saman, til mikils baga.

Hv. þm. vildi láta rannsaka alt ástand bankans áður en nokkuð væri gert. En ef má dæma eftir því, hvað störf peningamálanefndarinnar hafa gengið seint og borið lítinn árangur, þá er hætt við, að farið væri að dragast í tímann áður en rannsókninni væri lokið.

Hv. þm. (Ja.k M.) sagði, að stjórnin hefði átt að fella niður bankalögin frá 1920, samkv. heimild í 3. gr. þeirra. Jeg vil benda á það, að þegar lögin voru sett, — en jeg átti sæti í nefnd þeirri, sem hafði þau til meðferðar, — þá kom nefndinni saman um það, að ekki gerði til, þó þau væru feld niður, því sömu ákvæði eru í bankalögum frá 1919, sem stjórnin ekki getur felt úr gildi.

Hv. þm. Árn. (E. E.) skammaði ýmist eða lofaði stj.frv. Hann sagði, að það væri kálfur, sem ekki gæti staðið á löppunum. (E. E.: Jeg vildi unna því sannmælis.). Já, það er nú svo, líkingin um kálfinn sýnir best heilindin í því, en þar sem þessi hv. þm. er, höfum vjer fyrir oss kálf, sem getur staðið.