27.04.1921
Neðri deild: 56. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í C-deild Alþingistíðinda. (3267)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Gunnar Sigurðsson:

Þá er hið margþráða mál loks komið á dagskrá, málið sem meiri þörf hefði verið á að kveðja þing saman um en nokkurn tíma áður, að minsta kosti eins og fram er komið, að landsstjórnin og enda bankarnir hafa hvorki hreyft legg nje lið til að ráða fram úr því vandræðamáli, sem hjer er um að ræða.

Landsmenn hafa tapað tugum miljóna síðustu árin. Bæði bönkum og einstaklingum hafa brugðist vonir. Sjálfsagt er þetta að einhverju leyti sjálfskaparvíti, en það skiftir í raun og veru minstu máli, hverjum þetta ástand er að kenna, enda er það að ýmsu leyti af óviðráðanlegum orsökum. Hitt er meira um vert, og það ættu allir að geta verið sammála um, að gera alt sem unt er til þess að kippa þessu í liðinn og ráða fram úr málinu á sem bestan hátt. Jeg vona, að hægt verði að komast hjá persónulegum illdeilum eða meiðyrðum, þó hiti kunni að hlaupa í málið. Jeg mun að minsta kosti stilla í hóf orðum mínum, og ekki tala um menn heldur mál.

Það hefir verið oft bent á það, að komast mætti út úr ógöngunum með lántöku, og aðeins með lántöku. Og hvað svo sem um þá leið má segja, veit jeg ekki til þess að nokkur maður hafi bent á aðra leið. Mjer væri að minsta kosti þökk á því, ef einhver af háttv. þingm. vildu gera grein fyrir því, hvernig einstaklingur ætti að greiða nauðsynlegar skuldir sínar, ef hann ætti ekki fje fyrir hendi sjálfur, án lántöku. Og það sama gildir fyrir þjóðarheildina. Það er því brýn þörf á, að allir taki nú höndum saman til þess að bjarga bönkunum og landinu frá gjaldþroti.

Þegar jeg tala hjer um bankana, á jeg einkum við Íslandsbanka, enda hefir síst verið of mikið gert úr vandræðum hans. Og í þessu sambandi er ástæða til þess að minnast á eitt atriði, og það er samvinna bankanna. Það má um það segja, að Íslands óhamingju verður alt að vopni á þeim tímum, sem yfir hafa staðið, og aldrei hefir verið eins nauðsynlegt, að góð samvinna væri milli bankanna. Allir, að minsta kosti Reykvíkingar, vita hvernig samvinnan hefir verið innanlands.

Um samvinnuna utanlands nægir að benda á, að einn af bankastjórum Landsbankans rægir Íslandsbanka í viðtali við dönsk blöð, og mundi slíkt eins og á stóð naumast hafa getað komið fyrir annarsstaðar en hjer á landi, og verið liðið. Sami bankastjóri segir nú nýlega í samtali við blað eitt hjer í bænum, að Íslandsbanki sje eins konar útibú frá Privatbankanum. Það vill nú svo til, að þetta má að sumu leyti til sanns vegar færast. En mjer er spurn, mætti þá ekki með svipuðum rjetti kalla Landsbankann útibú frá Landmandsbankanum.

Eitt af aðalorsökunum fyrir því, að Íslandsbanki er kominn í það ástand sem hann er í, er það, að grundvöllurinn undir honum sem bankastofnun er ótraustur; hann er reistur á skökkum grundvelli, og þann grundvöll hafa fyrri þing lagt. Er t. d. von að vel fari um banka, sem hefir aðeins 4% miljónar króna höfuðstól, en víxla meira og minna veikt trygða fyrir alt að 30 miljónum. Nei, hjer duga engin vetlingatök, hjer þarf að skifta um grundvöll. Jeg get tekið undir það með hv. þm. Ísaf. að þetta þarf að gera undir eins. Allir munu viðurkenna nauðsynina á því að hjálpa Íslandsbanka við, því þótt hann sje að forminu til privatbanki, þá er hann þó í raun og veru þjóðbanki, þar sem flestir aðalatvinnuvegirnir byggjast á honum. Það þarf að gera þær ráðstafanir við bankann, að hann losni við þær óvinsældir, þann kala, sem á honum er nú innanlands. Það þarf að reisa við traust hans út á við. Til þessa þarf gerbreyting á öllu fyrirkomulagi bankans. Það duga ekki plástrar við liðhlaupi. Það þarf að afla honum fjár til greiðslu erlendra skulda. Það þarf að auka hlutafje hans og sömuleiðis veltufje.

Mjer virðist, að sjálfsagt sje, eins og sakir standa, að ríkið kaupi hluti í bankanum, eftir að örugg rannsókn hefir fram farið á hag bankans. Því þótt að vísu muni ekki heppilegt að hafa hjer á landi tvo þjóðbanka í framtíðinni, þá sje jeg ekki annað en, eins og sakir standa, að það sje bráðnauðsynlegt að hlaupa undir bagga með bankanum, annars veltur alt um koll. Þetta virðist mjer einnig, að meiri hluti háttvirtrar peningamálanefndar hafi sjeð.

Jeg býst við því, ekki stærra en margir háttvirtir þingmenn hjer í deildinni líta á hlutina, að þeim muni ofbjóða það fje, sem til þessara ráðstafana þarf, en þetta er eina leiðin út úr ógöngunum. Yfirbyggingin á okkar fámenna þjóðfjelagi er orðin svo mikil; og það er ekki þessu þingi heldur undanfarandi þingum að kenna, að við komumst ekki hjá því að reyna að halda öllu í horfinu með því að halda framleiðslu okkar og atvinnuvegum eins uppi og hægt er. Að öðrum kosti verðum við að losa okkur við okkar stóra útgjaldabákn með byltingu.

Tökum t. d., ef þau einu nýtískutæki, sem við eigum, togararnir, yrðu að hætta sakir veltufjárskorts, mundi þá ekki verða þröngt fyrir dyrum hjá mörgum kotbændunum um að greiða útgjöld til landsins?

Um leið og Íslandsbanka er útvegað fje til að starfa með og lagður nýr grundvöllur að starfsemi hans þarf að skifta um lið á skútunni, þarf að skifta um bankastjórn að nokkru eða öllu leyti. Það má heita svo, að síðastliðið misseri hafi verið bankastjóralaust við Íslandsbanka. Einn bankastjórinn hefir verið fjarverandi vegna veikinda, hinir tveir ýmist veikir eða fjarverandi, svo að telja má, að aðalerindi viðskiftamanna í bankann hafi verið það að spyrja um líðan bankastjóranna, og þó víst margir átt þangað þarfara erindi.

Í sambandi við þau þrjú frv., sem nú liggja fyrir þinginu um það mál, sem nú er til umræðu, skal jeg taka það fram, að jeg tel óhugsandi, að hægt sje að lækna núverandi ástand með lagasetning einni saman. Það verður ekki læknað nema með nýju blóði. Það verður ekki læknað með nýjum pappírspeningum. Það þarf nýja, gjaldgenga peninga, sem gilda út fyrir landsteinana. Það þarf umfram alt nýja menn, sem kunna að sigla út úr þeim ógöngum, sem búið er að stýra oss inn í.

Hvað frv. hæstv. stjórnar snertir, sem einn hæstv. ráðherranna lýsti nýlega yfir, að ekki bæri að skilja svo, að hún hefði tekið aftur, má um það segja, að það er reist á alómögulegum grundvelli, sem sje þeim, að bankinn hafi heimild til að auka hlutafje sitt. En hvaða maður í heiminum mundi kaupa slík brjef, eins og sakir standa, og þótt svo væri, að hann gæti selt, vantaði hann þó fje engu að síður. Þann kost hefir frv. fram yfir frv. efri deildar, að það er „tekniskt“ betri frágangur á því. En ber stjórnin ábyrgð á því frv., hvernig er það? Annars ætla jeg ekki að tala ítarlega um frv. þau, er liggja fyrir núna; má vera, að fleiri komi fram, en jeg mun fylgja því frv., sem best samrýmist minni skoðun á málinu. Jeg vil hjálpa Íslandsbanka vegna ríkisins en ekki hluthafanna, en ekki fyr en eftir ítarlega rannsókn á hag bankans. — Seðlaútgáfan vil jeg að tekin sje af bankanum smátt og smátt, en jeg vil alls ekki binda hana að svo stöddu við neinn sjerstakan banka, því eins og Landsbankinn er rekinn nú, tel jeg, að álitamál geti verið, hvort rjett sje að láta hann hafa seðlaútgáfuna; að minsta kosti liggur ekkert á því að binda hana straks.

Það væri æskilegt, enda veit jeg, að svo verður í framtíðinni, að íslenskir bankar hefðu sameiginl. íslenskar bankaafgreiðslur (clearing houses) erlendis, helst bæði í Danmörku og Englandi, svo bankar okkar þyrftu ekki að vera eins háðir dönskum bönkum og þeir eru nú. En til þess að geta komið þessu í kring nú, þyrfti föst lán til langs tíma. Ef þessi stjórn, sem nú situr að völdum, á að taka lán, sem jeg dreg í efa, að hún vilji gera, þar sem hún hefir lýst yfir því, að hún vilji helst ekkert lán taka, mun hún, að því er líkur benda á og enda komið í ljós, aðeins taka það í Danmörku, sbr. ummæli hæstv fjrh. (M. G.) í dönskum blöðum, að sjer hefði ekki komið til hugar að leita annarsstaðar fyrir sjer um lántökur; þetta verð jeg að telja mjög misráðið. Við ættum helst að fá lánið annarsstaðar, ef það væri mögulegt, og það tel jeg að víst sje. Það er ekki holt að hafa öll peningaviðskifti við þá þjóð, sem við eigum í samningum við um þau rjettindi vor, sem ekki verða metin til peninga.

Úr því jeg mintist á hæstv. stjórn í þessu sambandi, er ástæða til að minnast hins algerða aðgerðaleysis hennar í þessu máli. Þessi dauða hönd aðgerðaleysisins, sem hvílt hefir eins og mara yfir öllu, verður ekki metin til fjár. Að vísu er hægt að reikna út, hve mikið tjón við höfum beðið af því að taka ekki lán í sumar, að því er snertir gengisgróða, en veltustöðvunin og lánstraustsspjöllin verða ekki metin til peninga.

Hæstv. stjórn varð þá það sama til ráða og strútnum, þegar hann stingur höfðinu niður í sandinn. Þegar svo við „lánspostularnir“, sem hún í byrjun þings kallaði svo í háðungarskyni, en sem hún nú líklega neyðist til að taka til fyrirmyndar og fara eftir, bentum á syndir hennar í þessu efni, þá neyddi hún þingið til að stinga höfðinu einnig niður í sandinn, með því að telja því trú um, að ekkert væri um að vera, engin veruleg þörf á láni.

Hafi þessi frammistaða hjá hæstv. stjórn verið af skilningsleysi og fávisku, þá má það þing vera aumlega skipað, sem unir því, að hún sitji áfram eftir þetta. En sje þetta hins vegar viljaverk stjórnarinnar, verður það naumast skilið öðruvísi en svo, að hún sje með ásettu ráði að tefla okkur fram í gin erlendra, og þá einkum danskra skuldheimtumanna og þar með tortíma okkar sjálfstæði gagnvart Dönum. Og má jeg þá spyrja, til hvers vjer eigum eiginlega stofnun þá, sem landsdómur heitir.