27.04.1921
Neðri deild: 56. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í C-deild Alþingistíðinda. (3268)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Jón Baldvinsson:

Háttv. flm. (Jak M.) kvað svo fast að orði í gær, að hann óskaði þess, að þeir þm., sem hefðu eitthvað við frv. að athuga, ljetu nefndina heyra til sin þegar við þessa umr.

Hjer er eiginlega aðeins að ræða um aðra hlið málsins, en það er seðlafyrirkomulagið. Háttv. þm. geta því ekki tekið fulla afstöðu til málsins, fyr en síðari hluti þess hefir verið athugaður af nefndinni, en sá hlutinn er mikilsverðastur, því þar eiga að vera till. til lausnar á fjárkreppunni. Þó eru nú í þessu frv. feld niður stórvægileg atriði, eins og t. d. yfirfærsluskylda Íslandsbanka. Það hefir verið sagt, að hún hafi ekki komið Landsbankanum að neinu haldi. Mjer virðist nú annað hafa komið fram hjá þeim fjármálamönnum, sem skrifað hafa um þetta mál, en að hún sje þýðingarlaus.

Það virðist svo, sem sá banki, er hefir á hendi seðlaútgáfu landsins og stærstu lánin til atvinnuveganna, hljóti að vera sá banki, sem mest fær af erlendu fje, og það er því mjög varasamt að fella niður yfirfærsluskylduna. Það er að vísu rjett, að þessi skylda hefir ekki komið að haldi á þessu ári, en landið á þá sök á hendur bankanum, og eigi nú að fara inn á þá braut, að landið taki að sjer bankann, þá heyrir það til þeim síðari hluta, og þá má ef til vill ráða svo fram úr þessu, að ekki saki, þó yfirfærsluskyldan sje feld niður. Því að ef bankinn verður ríkiseign, þá er engin ástæða til þess að hafa yfirfærsluskylduna. Hvort ríkið skuli eignast bankann nú þegar í stað eða smátt og smátt, um það skal jeg ekki tala hjer, en jeg tel sjálfsagt, að ríkið eignist hann að lokum.

Það er annars stórmikill galli, að þetta mál skuli hafa komið svona seint fram, en ekki dugar að saka um orðinn hlut. Þetta gæti orðið til þess, að ekki verður hægt að ganga frá málinu að fullu nú á þessu þingi, en þyrfti að fela það landsstjórninni til frekari undirbúnings fyrir næsta þing. En þá þyrfti það helst að vera í höndum þeirrar stjórnar, sem treystandi væri, en ekki hjá þeirri stjórn, sem hefir sýnt, að hún kann ekki að fara með það svo, að vænta megi viðunandi úrslita fyrir þjóðina.