27.04.1921
Neðri deild: 56. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í C-deild Alþingistíðinda. (3273)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Gunnar Sigurðsson:

Jeg stend upp til þess að svara hv. 1. þm. N.-M. (Þorst J.) og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) örfáum orðum. Þeir hafa báðir misskilið ummælin, sem jeg tók upp úr blaði frá í dag, en gerði ekki nema að nokkru leyti að mínum orðum. Íslandsbanki hefir 10 milj. kr. lánstraust hjá Privatbankanum á ári, en verður að gera upp um áramót. Jeg fæ ekki betur sjeð en að útibússnið sje á þessu. Og menn hafa sjeð, hversu heppilegt þetta fyrirkomulag er. Þegar Íslandsbanka brást erlendur gjaldmiðill, gat hann ekki yfirfært vegna þess, að samband hans við erlenda banka var takmarkað við Privatbankann, en hann brást þegar á reyndi. Líkt er ástatt um Landsbankann. Hann hefir aðeins lánstraust frá ári til árs. Þetta er hættulegt, ef í harðbakka slær, og það hefði getað farið eins fyrir Landsbankanum, eins og fór fyrir Íslandsbanka. Á þessu má sjá, hversu óheppilegt það er að hafa ekki fast, ákveðið lánstraust til lengri tíma erlendis.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði eitthvað á þá leið, að það væri ósæmilegt af þjóðarfulltrúa að tala um það, að útibússnið væri á Íslandsbanka. Að vísu var þetta útþyntur misskilningur frá hv. 1. þm. N.-M. (þorst. J.), en það er altaf gaman að sjá, hvað það kemur nálægt hjartanu í háttv. þm., ef sannleikurinn er sagður um nefndan banka.

Annars get jeg tekið undir með hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að það var illa viðeigandi, að 1. bankastjóri Landsbankans skyldi haga ummælum sínum við danska blaðamenn svo, að það varð til að veikja lánstraust Íslandsbanka. Því að þó að Íslandsbanki hafi verið einkabanki og erlendra manna eign að mestu, þá er nú svo komið, að hann er orðinn þjóðbanki, og lánstraust landsins fer mikið eftir lánstrausti hans. En nú á að vinna að því að gera bankann innlendan, og þá er ekki þörf að gera endanlega ákvörðun um seðlaútgáfurjettinn. Þegar útlendir skuldheimtumenn vita, að landið stendur á bak við. Þá þurfa þeir ekki að óttast, þó að seðlafyrirkomulagið sje ekki endanlega ákveðið. Það sem aðallega hlýtur að hræða þá, er óvissan, er hættan á því, að þingið kippi að sjer hendinni, en sú hætta hverfur, ef landið eða Íslendingar eiga bankann að mestu.

Að endingu vil jeg undirstrika það, að þeir hv. þm., sem talað hafa gegn mjer, misskildu orð mín um útibúið. Jeg vildi aðeins benda á, að náið samband væri á milli þessara banka, og að það væri óheppilegt. Privatbankinn hefir alls ekki komið sæmilega fram í viðskiftum sínum við Íslandsbanka, og þarf því ekki að hlífa honum í orðum. Það vil jeg líka undirstrika, að lánstrausti okkar er ekki nægilega vel fyrir komið. Það er of lauslopalegt, of útibúslegt, ef svo má segja, og auk þess er óheppilegt að hafa það í Danmörku. Við eigum þar undir högg að sækja um sjálfstæði okkar, og ekki er viðeigandi að vera þeim fjárhagslega háðir, enda eru aðrar leiðir færar. Það er hægt að komast í viðskiftasamband við aðrar þjóðir, sem er hollara á allan veg.