29.04.1921
Neðri deild: 58. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í C-deild Alþingistíðinda. (3277)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Þorsteinn Jónsson:

Það er nú svo langt um liðið síðan að þetta mál var hjer til umr., að jeg man nú ekki alt það, sem ástæða hefði verið til að svara.

Mjer virtist kenna nokkurs misskilnings í ræðu hæstv. atvrh. á því, sem jeg hafði sagt í þessu máli. Hæstv. atvrh. sagði eitthvað í þá átt, að þau einu bjargráð, sem jeg sæi fyrir bankann, væru að framlengja heimildarlögin um seðlaútgáfurjettinn. Hjer blandar hæstv. ráðherra málum fremur freklega, þar sem jeg einmitt tók það fram, að seðlafrv. gæti ekki bjargað bankanum. Þó að fullnaðarúrslit væru fengin um seðlaútgáfu bankans, þá er engu nær að það raknaði úr fjárkreppu hans. En það eru aðalbjargráðin, sem hæstv. atvrh. (P. J.) hefir komið auga á, ef dæma má eftir því, sem orð hans falla.

Það er vitanlegt, að bankinn skuldar svo mikið og lánstraust hans svo takmarkað, að þó að hann fengi seðlaútgáfumálið leyst samkvæmt fylstu ósk sinni, þá er honum það ekki fullnægjandi.

Eina ráðið til að ráða fram úr fjárkreppu bankans er, að hann geti fengið lán, og það svo stórt lán, að engin líkindi eru til, að hann geti fengið það án aðstoðar ríkisins.

Og það munu allir vera á þeirri skoðun, að ríkið þurfi að aðstoða bankann um fjárútvegun. Það er oft talað um það, að ríkið hjálpi Íslandsbanka, en sú hjálp er vitanlega gerð landinu til bjargar, því að atvinnuvegirnir þola ekki þann hnekki, sem verður, ef bankinn getur ekki haldið áfram rekstri sínum.

Peningamálanefndin hefir ekki komið enn með ákveðnar till., en þær munu koma þessa dagana.

En á hvern hátt aðstoð ríkisins við bankann verður getur verið álitamál. Það verður, að mjer virðist, að halda fleiri en einni leið opinni. Það verður að semja við bankann um aðstoð ríkisins í sambandi við úrslit seðlamálsins.

Þá kem jeg að því atriði, sem hefir orðið þess valdandi, að við, jeg og hv. 1. þm. Árn. (E. E.), gátum ekki orðið samferða hv. flm. (Jak. M.) með frv. það, sem hjer er til umr. Og þetta atriði er yfirfærsluskylda bankans fyrir Landsbankann. Jeg lít þó svo á, að þetta komi Landsbankanum að engum notum eins og sakir standa, en það er kvöð á Íslandsbanka, sem hann hefir áður gengist undir, og sem sjálfsagt verður að ljetta af honum, þegar samningar nást við hann um seðlaútgáfuna, en fyr ekki.