29.04.1921
Neðri deild: 58. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í C-deild Alþingistíðinda. (3280)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vildi fyrst, út af ummælum hv. 1. þm. Árn. (E. E.) um að það væri stjórninni að kenna, hve lengi þetta mál var hjá nefndinni, án þess að svara þessari ásökun, sem er ekki ný, segja, að jeg veit ekki, hvernig hv. nefnd fer að verja það, að hún skuli ekki koma fram með bjargráð sín, sem hún kallar svo, jafnhliða eða í þessu frv. Sýnist mjer, að þegar menn hafa verið að álasa stjórninni fyrir, að hún skyldi eigi taka lán í fyrra, að nú megi snúa því upp á nefndina og ásaka hana fyrir, að hún skuli ekki hafa fyrir löngu komið með till. um lántöku, úr því það var talið svona áríðandi.

Eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. Arn. (E. E.) fanst mjer miður viðeigandi að kæmi frá honum, þar sem hann er bankastjóri. Það er óheppilegt, að fram skuli koma efasemdir um banka frá bankstjóra við annan banka, nema augljóst sje, að bankinn sje ótryggur. Hv. þm. (E. E.) er að tala um hneykslanlega hótun frá Íslandsbanka, ef bankinn fái ekki ákveðna skipun. Jeg veit ekki til, að komið hafi frá bankanum nein hótun um lokun. Jeg veit að minsta kosti, að sá bankastjóri Íslandsbanka, sem sjerstaklega hefir verið samið við, hefir forðast að hafa í frammi nokkra hótun um lokun. Jeg veit ekki til þess, að hann hafi sagt annað en það, að bankinn, vegna hinna örðugu tíma, ætti erfitt með að starfa áfram, nema gerð yrði endanleg skipun á seðlaútgáfurjettinum. Annað hefir hann ekki sagt. Það er því mjög illa tilfallið fyrir bankastjóra að vera að dylgja með ískyggilegt útlit hjá öðrum banka. Það er því varhugaverðara sem hagur þjóðarinnar er bundinn við þennan banka.

það vill nú svo vel til, að síðasta ár var athugaður hagur Íslandsbanka af bankaráðinu, hvort ekki væru trygg veð fyrir lánum. Jeg býst ekki við, að hv. þm. (E. E.) efist um, að skýrsla þess bankaráðsmanns, sem sjerstaklega athugaði þetta fyrir bankaráðsins hönd, hv. þm. Dala. (B. J.), sje rjett, og að engin ástæða sje til að rengja hana, og eftir henni er Íslandsbanki fullkomlega tryggur, enda væri útlitið fyrir þetta land þá afarískyggilegt, því að bak við bankann stendur mestur hluti íslenskrar verslunarstjettar og framleiðenda.

Jeg býst við, að hv. þm. (E. E.).hafi sagt þetta óvart, og að hann hafi ekki meint neinar dylgjur, og mun hann þá leiðrjetta þetta, ef hann tekur til máls aftur.

Jeg veit ekki, hvaða stofnun hv. þm (E. E.) var að tala um, að hann hefði lesið um í útlendum blöðum, til að bera saman við Íslandsbanka. Sjálfsagt hlýtur það að hafa verið banki, því að banki, er hefir meir en hálft landið bak við sig, er ekki sambærilegur við einhverja iðnstofnun. Hv. þm. (E. E.) sagði einnig, að það, sem stæði á bak við, gæfi bankanum gildi. Við vonum, að það, sem stendur að baki Íslandsbanka, gefi honum gildi; við vonum það allir, og efumst ekki um, að. hann kemst úr ógöngunum, ef skynsamlega er í málið tekið hjer á þingi.

Út af því, sem hv. flm. (Jak. M.) sagði um skeytið frá bankastjóra Clausen, skal jeg taka fram, að háttv. þm. (Jak. M.) hefir má ske sjeð skeytið, sem Tofte bankastjóri sendi til Privatbankans. Jeg játa það, að jeg hefi ekki sjeð það, en jeg bað hann að spyrja Clausen að því, hvort hann í umgetnu „memorandum“ ætlaði að segja nokkuð um afstöðu Privatbankans til Íslandsbanka.

Svarið upp á þá fyrirspurn var eins og jeg hefi nefnt, og hv. þm. er velkomið að fá að sjá öll skjöl, er hita að þessu máli. Annars er enginn ágreiningur okkar í milli um þetta, svo að jeg hefi ekki meira um það að segja.

Já, þá var það það, sem hv. flm. (Jak. M.) nefndi bjargráð, það er að segja að leggja hlutafje í bankann með því að kaupa hlutabrjef í honum, og að verð þeirra yrði þá ákveðið, þegar sjeð væri, hvort bankinn biði tjón eða ekki. Jeg skal ekki fara langt út í þetta að þessu sinni. En Jeg játa, að jeg get ekki skilið, hvernig þetta má verða öðruvísi en með forgangshlutum, sem fylgja ættu settum reglum um forgangshlutabrjef. Því að líklega líður býsnalangur tími, þangað til sjeð verður út um það, hvort bankinn býður tjón á þeim skuldum og kröfum, er hann á útistandandi nú. Það munu liða nokkuð mörg ár þangað til þetta sýnir sig. Jafnvel er því svo varið um kröfur, sem komnar eru til innheimtu, t. d. í þrotabúum. Það geta liðið mörg ár, þangað til sjeð verður, hvaða tjón bankinn bíður á þeim. Jeg get ekki skilið, hvernig borga ætti inn hlutina, nema með mati. Það yrði annars hægra að dæma um till. hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), ef þær kæmu fyrir hina hv. deild í ákveðinni mynd. En hitt mætti auðvitað gera, eins og líka venjulegt er, að ganga inn í bankann með forgangshlutum. En þeir gefa oftast ekki rjett til atkv., en skoðast að nokkru leyti sem lán.

Hv. þm. (Jak. M.) sagði, að í þessu „memorandum“ væri ekkert minst á, hvernig skipa skyldi seðlaútgáfunni til frambúðar. Nei, ekki beint, en þar er bygt á því, að þegið sje boðið um það, að bankinn afhendi seðlaútgáfurjettinn smátt og smátt. Það sjest þar, að þeir bankaráðsmenn, sem undirrituðu „memorandum“ þetta, telja það að láta af hendi seðlaútgáfurjettinn af bankans hálfu, og mundi þá helst vera tekið á móti honum á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í stj.frv.

Áður en jeg sest niður, þá þykir mjer rjett að drepa á það, sem jeg þó var búinn að segja, þegar málið var síðast hjer til umr. Það var um það, að Íslandsbanki og Landsbankinn væru skoðaðir sem útibú frá dönskum bönkum. Þetta er á engan hátt rjett. Annað mál er það, að einn bankastjórinn við Privatbankann hefir um allmörg ár farið, eða rjettara, látið fara með umboð meiri hl. hluthafa á aðalfundi bankans, en það heimilar ekki að nefna bankann útibú frá Privatbankanum samt. Og þó Privatbankinn sje aðallánardrottinn Íslandsbanka, þá nær það engri átt, þegar talað er í fullri alvöru. Jeg þarf þá ekki að nefna það, að þetta getur alls ekki komið til mála um Landsbankann.

Menn ættu yfir höfuð að varast það, þegar verið er að ræða um svona alvarlegt mál, að koma með óhugsuð orð, sem ekki ættu að heyrast í þingsal, þótt þeir kasti slíku fram í ógáti sín á milli utan þingsins.

Jeg verð að segja það um hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), að hann fer með ógætnishjal hjer í þinginu. Jeg get ekki látið hjá líða að minnast á þau ummæli háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), að vjer eigum að forðast að taka lán hjá Dönum, af því að vjer höfum átt í deilum við þá, og var eitthvað að líkja því, að taka lán hjá þeim, við móttöku gjafakornsins hjer um árið. Jeg tel það rangt að vera með þess konar ummæli hjer í deildinni, og hefi jeg áður orðið að víta hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) fyrir ummæli, sem hefir mátt skilja svo, að Danir óskuðu að hafa yfirráð yfir Íslandi, t. a. m. með lánum eða á annan hátt. Þetta er mjög fjarri sanni, og það er yfir höfuð illa gert að vera að ala á úlfúð til Dana. Allar gamlar deilur milli Íslands og Danmerkur var sæst á að fullu 1918, og gerðum vjer samband af fullu frelsi frá báðum hliðum í þeirri von, að þá tækist upp nánari og betri samvinna og samúð með fullum heilindum. Alla samninga hafa Danir haldið drengilega og reynst oss vel. Jeg geri ráð fyrir, að ekki sje mikið um lánavonir sem stendur fyrir oss annarsstaðar en í Danmörku og má ske í Englandi. Ef vjer stöndum í skilum með lán vor, þurfum vjer ekkert að óttast, og ekki óttast jeg, að Danir verði oss harðari lánardrotnar en aðrar þjóðir, ef á bjátar. Annars þarf ekki að tala um neina beiningamensku, þótt lán sjeu tekin gegn vöxtum; það er að nokkru líkt kaupi og sölu, þótt ekki sje því að leyna, að þurfum vjer að leita láns nú erlendis, þá þurfum vjer á góðvild að halda hjá lánardrotni, eins og tímarnir eru.

Hv. þm. (Gunn. S.) var að segja eitthvað um það, að ef einhver hallaði á Dani hjer í þingsalnum, þá spryttu þegar sumir upp til að mótmæla. Jeg viðurkenni, að því er svo farið um mig. Jeg hefi ávalt haldið því fram, að oss bæri að sýna Dönum fulla kurteisi og viðurkenningu, og jeg var ekkert hræddur við að halda þessu fram hjer í þingsalnum, meðan deilurnar stóðu milli vor. Jeg sagði þá, að þótt vjer værum í deilum við þá, þá ættum vjer altaf að gæta þess að sýna þeim að minsta kosti þá kurteisi, er vjer værum skyldir að sýna öðrum þjóðum, er við hefðum viðskifti við. Fyrir þetta var jeg að vísu einu sinni kallaður danskasti þingmaðurinn á þingi.