29.04.1921
Neðri deild: 58. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í C-deild Alþingistíðinda. (3282)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Gunnar Sigurðsson:

Hæstv. forsrh. (J. M.) misskildi og rangfærði þau ummæli, sem jeg tók úr samtali L. Kaabers bankastjóra við Morgunblaðið. Hæstv. forsrh. (J. M.) slítur ummælin Þar að auki út úr sambandi, enda var hann ekki inni í deildinni, er jeg hjelt umrædda ræðu, og mun því hafa farið eftir sögusögn annara.

Jeg sagði sem rjett var, að L. Kaaber hefði sagt, að Íslandsbanki væri útibú frá Privatbankanum, en sagði, að svo framarlega sem álíta mætti, að svo væri, þá mætti með svipuðum rjetti kalla Landsbankann útibú frá Landmandsbankanum. Annars átaldi jeg bankastjórann fyrir opinberar árásir hans á Íslandsbanka, sjerstaklega í erlendum blöðum.

Annars breytir þetta að engu skoðun minni á því, að nauðsyn sje á því að breyta fyrirkomulagi beggja bankanna að því er snertir viðskifti þeirra við útlönd. Þeir þurfa sem fyrst að fá sjerstaka, íslenska peningaafgreiðslu annaðhvort í Danmörku eða Englandi, því eins og er stappar satt að segja nærri því, að telja megi bankana með útibússniði, frá áðurgreindum bönkum, sjerstaklega þó Íslandsbanka, og skal jeg ekki fara nánar út í það hjer, sökum þess, að jeg hefi tekið það fram hjer fyr í umr. um bankamálin.

Hæstv. forsrh. (J. M.) gat um það, að jeg talaði ógætilega um skuldaskifti okkar við Danmörku. Ójá, engan mundi undra slíkt um hæstv. forsrh. (J. M.). Jeg er á annari skoðun um þetta mál og vil, að talað sje af fullri einlægni um þau. Það er mín skoðun, að æskilegt væri, að við gætum sem fyrst losnað við öll skuldaskifti við Danmörku, vegna þess, að við höfum önnur mikils varðandi viðskifti við Dani. Jeg skal geta þess í þessu sambandi, að jeg gladdist yfir þeirri óvenjulegu hreinskilni hjá hæstv. forsrh. (J. M.), að hann sagði, að sjer þætti engin vansæmd í því að vera talinn danskasti þm. á þingi, eins og, að því er hann sagði sjálfur, hann hefði oft verið talinn, og mun það síst ýkt vera. Er vel, að hæstv. forsrh. gefur sjálfum sjer þennan vitnisburð, svo að þetta geti hver maður sjeð í Alþt., Því varla kemur til, að hann fari að strika þessi ummæli út úr ræðu sinni. Annars virðist það vera einkenni þessa þings, að menn þora ekki að segja meiningu sína, heldur tala alt of gætilega, þeir, sem annars hafa nokkrar skoðanir, en slíkt væri síst hægt að saka hæstv. stjórn um.

Hæstv. forsrh. (J. M.) virðist leggja alt annan skilning í þinghelgishugtakið, en vera ber. Jeg hygg, að flestir muni skilja tilgang þess á þann veg, að það sje til að þingmenn geti ótvírætt látið skoðun sína í ljós og það fremur en utanþings.

þá var hæstv. forsrh. (J. M.) að tala um, að hann hefði orðið að víta mig fyrir að tala ógætilega. Ef jeg á annað borð á að taka þau ummæli svo alvarlega að svara þeim, þá er því til að svara, að það er hæstv. forseta að vita það, ef svo væri, en ekki hans. En það skal tekið fram í eitt skifti fyrir öll, að ætli hæstv. forsrh. (J. M.) að fara að setja mjer ákveðnar reglur að fara eftir í þingræðum mínum eftirleiðis, þá tek jeg slíkt sem fullkomna markleysu og virði það ekki svars.