13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í C-deild Alþingistíðinda. (3300)

136. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Jakob Möller:

Jeg bjóst við, að stjórnin hefði eitthvað meira að segja um þetta frv. en raun er á orðin. Jeg gekk út frá því sem gefnu, að það væri fram komið í samráði við hana, þar sem flm. eru stuðningsmenn stjórnarinnar. En svo var að heyra á ræðu hæstv. fjrh. (M. G.), að hann kysi heldur, að þetta frv. næði ekki fram að ganga, en lagði alt kapp á Ed.frv. Jeg býst þó við því, að stjórninni hafi verið þetta frv. kunnugt og vænti þess vegna, að hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) segði eitthvað um, hvort samkomulag gæti um það náðst eða ekki. Allir vita, að hjer er um mál að ræða, sem löggjafarvaldið er ekki einrátt um. Það er ekki hægt að ráðstafa því, án þess að spyrja hinn aðiljann; það verður að vera samkomulagsmál. Þegar í 1. gr. þessa frv. er ákvæði, sem jeg veit ekki betur en valda muni ágreiningi, eftir því sem Íslandsbanki hefir látið uppi við peningamálanefndina. Hann leggur aðaláhersluna á það að fá að halda toppi seðlaútgáfunnar, en eftir þessu frv. er svo að skilja, að toppurinn eigi að vera hjá Landsbankanum. En ef Íslandsbanki vill ganga að þessu nú, þá er öðru máli að gegna, og mjer þætti vænt um, ef stjórnin gæti upplýst um það.

Yfirleitt væri fróðlegt að vita, hver afstaða Íslandsbanka er til þessa frv., og hvað stjórnin býst við, að taki við 30. sept. ef frv. verður samþ., en hluthafar Íslandsbanka vilja ekki ganga að því. Þá sje jeg aðeins eitt ráð, bráðabirgðalög. Jeg sje ekki að svo stöddu ástæðu til að snúast á móti frv., því að jeg álít það aðeins til bráðabirgða. Það er ekki gengið svo frá skipun seðlaútgáfunnar, að til frambúðar eða endanlegra úrslita megi verða. Það er alveg óvíst, hver á að taka við af Íslandsbanka. Það er órannsakað mál, hvort heppilegt sje að láta Landsbankann gera það. Hann hefir t. d. mikið sparifje, en slíkt er ekki talið heppilegt um seðlabanka, og almennur viðskiftabanki, eða það, sem oft hefir verið kallað „spekulations“-banki, er hann í raun og veru engu síður en Íslandsbanki. Jeg held, að best sje að slá engu föstu, því að vafi getur á því leikið, hvort ekki sje rjett að stofna sjerstakan seðlabanka, því að gagngerð breyting verður að ske á Landsbankanum, áður en hann er gerður að seðlabanka. Það er viða talið eins tryggilegt, eða tryggilegra, að láta fasteignir standa bak við seðlana, heldur en gull, og gæti því komið til mála að gera fasteignabankann að seðlabanka. En alt þetta þarf að rannsaka, áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Jeg hefi ekkert á móti því, að þetta frv. fái að ganga til 3. umr. til athugunar, því þó að Landsbankanum væri falin seðlaútgáfan, þá er altaf hægt að breyta því, þegar rannsókn hefir sýnt, að annað er heppilegra.