13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í C-deild Alþingistíðinda. (3302)

136. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Gunnar Sigurðsson:

Mjer þykir vænt um, að sú stefna er orðin ofan á í báðum deildum, að sjálfsagt sje að hjálpa Íslandsbanka með lánum til hlutafjárauka. Jeg hefi haldið þessu fram frá byrjun og gleðst því yfir því, að það skuli verða orðið viðurkent af þinginu. það er í raun og veru ekki neinn grundvallarmunur á frv. þessu og Ed.- frv., bæði ganga út frá því, að hlaupa undir bagga með bankanum, og jeg sje ekki, að lakara sje að leggja frv. þetta til grundvallar, og það er betra að því leyti, að það tryggir landið betur gagnvart Íslandsbanka og hluthöfum hans. Jeg er þeirrar skoðunar, að ekki beri að gera endanlega skipun á seðlaútgáfunni nú, og það er í raun og veru ekki gert með þessu frv., því málið er áfram í höndum þingsins, þó að Landsbankinn sje tilnefndur til að taka við af Íslandsbanka. En það er rjett stefna að láta hlutafjárbanka, verslunar- og „spekulations“-banka ekki hafa seðlaútgáfuna á hendi, enda hefir það hvergi reynst affarasælt. Þá get jeg fallist á tilgátu hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), að líklega væri heppilegt í framtíðinni að gera fasteignabankann að seðlabanka, því að fasteignir eru í vissu tilliti betri trygging en gull, og væru ágætur tryggingargrundvöllur, að minsta kosti með gulli, sem einkum væri þörf á út á við fyrir tryggingu seðlanna. Það hefir sjerstaklega komið í ljós nú á ófriðarárunum, að gullið er ekki einhlítt, enda er það alkunna, að á byltingartímum er gullið ekki einhlít trygging.

Það var eins og allir vita hugmyndin í fyrstu, er Íslandsbanki var stofnaður, að ein af aðaltryggingum hans fyrir seðlaútgáfunni væri fasteignatrygging. — En frá því var horfið, og var það óheillaráð, því að það mundi hafa reynst, að betur hefði málum hans verið skipað nú, ef hann hefði aðallega bygt á fasteignatryggingum með því gulli, sem hann hafði til umráða.

Mjer datt nú í hug, er jeg sá frv. þetta, að 5 milj. kr. lán væri of lítið fyrir bankann, nema þá að stjórnin eða Landsbankinn gæfi eftir þann hluta, sem Landsbankanum er ætlaður samkvæmt frv., en Íslandsbanki borgaði vexti af þeirri upphæð.