13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í C-deild Alþingistíðinda. (3309)

136. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Jakob Möller:

Mig furðar að ýmsu leyti á þessum umr., bæði á ummælum hæstv. stjórnar, ekki síður en orðum ýmsra hv. þm. Hæstv. fjrh. (M. G.) kvaðst ekki skilja vel mína afstöðu í þessu máli. Það er heldur ekki nýtt, að okkur gangi treglega að skilja hvor annan, og jeg fyrir mitt leyti kippi mjer ekki upp við það. Það er fullkomlega rjett, sem hæstv. ráðherra (M. G.) sagði, að þessu frv. svipar allmjög til stj.frv. En því verra á jeg með að skilja það, að hæstv. stjórn skuli vera því eins andstæð og hún virðist vera, og við samanburð frv. sjest, að þetta frv. hefir ýmsar breytingar til bóta, t. d. og fyrst og fremst alveg ótvíræð ákvæði um skipun seðlaútgáfu Íslandsbanka, og auk þess bæði lánsheimild og heimild til að leggja fram hlutafje úr ríkissjóði, þar sem í stj.frv. var aðeins heimild til hlutafjáraukningar, sem vitanlegt var að ekki mundi verða notuð. Jeg hefði þó getað skilið afstöðu hæstv. stjórnar, ef hún hefði upplýst það, að samkomulag gæti ekki náðst um frv. við Íslandsbanka, t. d. ákvæði 1. gr. En það hefir hún ekki gert.

Að því er til þess kemur, sem sagt hefir verið hjer um seðlatoppinn, eða aukaseðlana, þá lít jeg svo á, að hann eigi ótvírætt að vera hjá Landsbankanum eða ríkissjóði. En það er misskilningur, að þessi toppur sje enginn. þessa reikulu seðla verður altaf að gefa út, og á þá auðvitað að vera ótvírætt ákveðið, hver skuli gefa þá út. Og það þarf ekki til, að fúlgan sje yfir 8 miljónir, eins og einhver var að tala um; toppurinn svo nefndi er alveg jafnt fyrir hendi, hvort sem seðlaútgáfan nemur yfir eða undir 8 miljónum.

Annars mintist hv. þm. Ak. (M. K.) nokkuð á það, að hann legði ekki mikið upp úr því, hvernig Íslandsbanki tæki í þetta alt. Áður en jeg fer lengra út í það vil jeg geta þess alment, að þessi hv. þm. (M. K.) virtist hafa misskilið ræðu mína svo grandgæfilega, að engin tök eru á því að leiðrjetta þar alt. — En þar sem hjer er um það að ræða að taka rjettindi af Íslandsbanka, sem hann hefir, sje jeg ekki, að hjá því verði komist að taka eitthvert tillit til hans. Því hefir að vísu verið slegið fram, að bankinn hafi brotið svo af sjer, að svifta mætti hann öllum rjetti. En jeg veit ekki til þess, að það hafi verið staðfest, og ekki hefir stjórnin litið svo á, eftir því, hvernig hún semur við bankann. Hitt er svo auðvitað sjer á parti, hvernig þeir samningar ganga, eða hve langt bankinn getur eða vill fara vegna tilveru sinnar. En um alt þetta þarf að fá upplýsingar, sem enn þá vantar. Og meðfram þess vegna er það, sem jeg og fleiri viljum láta fresta endanlegum samningum um seðlaútgáfuna, sem stjórnin leggur svo mikið upp úr nú, og ráðstafa þessu aðeins til bráðabirgða. Engin hætta ætti að vera á því, að samningar spiltust við þetta seinna. Má þar benda á það, að bankinn varfús til samninga 1919, og krepti þá ekkert að honum. Svo sje jeg heldur ekki, hvað unnið væri við það að samþ. þetta um seðlaútgáfuna nú, fyrst henni er ekki ráðstafað áfram um leið. Það er einnig athugavert við frv. hv. Ed., að ekkert er ákveðið um það, hvort afhendingin eigi að fara fram ofan frá eða neðan. — Ef hún á að fara fram frá rótunum, er breytingin engin í raun og veru.

Jeg geri ráð fyrir, að jeg hagi atkv. mínu eftir því, hvað orðið getur úr samkomulagi um þetta mál. Jeg mun greiða frv. atkv. til 3. umr. en vænti þess þá að fá þær upplýsingar hjá hæstv. stjórn, sem jeg hefi minst á. En eins og jeg tók fram áðan, þá hefi jeg þær sjerkreddur, sem virðast ekki hafa mikinn byr í hv. deild, að seðlaútgáfan eigi hjá hvorugum bankanum að vera, en auðvitað má síðar meir fela hana sjerstakri stofnun, þótt öðruvísi verði ákveðið nú fyrst um sinn.

Á hinn bóginn verð jeg alveg að mótmæla hv. þm. Ísaf. (J. A. J.), að ekki geti komið til mála að hafa seðla ógulltrygða, þótt um slíkt hafi verið talað á stríðsárunum. Það var nú víst ekki talað svo mjög mikið um það á þeim árum einmitt. En hitt er alveg víst, að ekki er talað minna um það nú. Vitanlega hefir álitið á gulltryggingu minkað einmitt við það, hvernig hún reyndist á stríðsárunum. Hún reyndist sem sje þá svo, að gullið var fyrst „lokað niðri“, en svo þegar átti að fara að nota það, þá vildi enginn líta við því. Og jeg skil ekki það samræmi, sem hv. þm. (J. A. J.) getur fundið í því, að ekki sje óhætt að tryggja seðla með jarðarveði, úr því að hann flytur frv. um að hafa seðlana ótrygða, nema með einfaldri ríkisábyrgð. Auðvitað er hægt að hugsa sjer, að jarðarveðin rými, en þá er hitt ekki síður, að ríkisábyrgð getur orðið meira en vafasöm. Að minsta kosti ef allar jarðir landsins fara forgörðum, svo þær verða ekki lengur veðhæfar, þá býst jeg ekki við, að ríkisábyrgðin verði talin mikils virði. Jeg hefi nú þó ekki gert ráð fyrir, að allir seðlar yrðu trygðir með jarðarveðum eingöngu. Auðvitað er nauðsynlegt að hafa gulltryggingu með, að minsta kosti fyrir „toppseðlunum“, sem kallaðir hafa verið, þ. e. þeim seðlum, sem aðeins er þörf fyrir nokkurn tíma ársins. En það, sem þarf til fastra, daglegra viðskifta, er óhætt að tryggja með jarðarveði eingöngu. Hv. þm. (J. A. J.) kvað gullið nauðsynlegt til kaupa á útlendum vörum. Það gæti auðvitað komið fyrir, að handhægt væri að grípa til gulls í því skyni, og hefir í öðrum löndum oft verið til þess gripið. En þegar um okkar land er að ræða, verður það tæplega gert svo nokkru nemi; gullforði sá, sem við höfum yfir að ráða, verður svo lítill, að hann getur aldrei hrokkið langt til þeirra nota. En á hinn bóginn ber þess að gæta, að við yrðum þá gulllausir á eftir, og þá hefðum við hvorki gull nje jarðarveð fyrir seðlunum.

Að öllu athuguðu, sem fram hefir komið í þessum umr., virðist mjer þetta mál ekki standa skýrara fyrir hv. þm. og hæstv. stjórn en svo, að rjettast væri að taka upp það ráð, sem meiri hl. peningamálanefndar benti á, að fresta úrslitum þess til næsta þings og fela það sjerfræðingum til athugunar milli þinga. Það, sem hjer verður gert, verður aldrei annað en fálm út í óvissu. — Jeg sje, að hv. þm. Ak. (M. K.) hugsar sjer til hreyfings, og hann er vist farinn að efast um, að jeg sje eins hlyntur frv. hans og hann gerði ráð fyrir í fyrstu, en það, sem jeg nú sagði, er mín sanna skoðun á málinu, sem jeg hefi aldrei gengið frá, þótt jeg ekki vilji bregða fæti fyrir þetta frv. að svo komnu.