18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

38. mál, verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vil aðeins árjetta það, sem jeg sagði áður, að það er erfiðara að fara rjett með lifur en margur heldur. Háttv. frsm. (Þór. J.) sagði, að það væri fullnægjandi, ef tappað væri af vatni og lifrin ekki blönduð annarlegum efnum, en jeg hefi nú sýnt fram á, að ómögulegt er að segja með vissu, hvenær lifrin er orðin vatnslaus. Jeg held því, að lögin nái varla tilgangi sínum, að þessu leyti. Jeg held einnig, að erfitt verði að segja til, hvers konar lifur seld er. Togarar og stærri mótorbátar veiða allskonar fisk í einu og hirða lifrina alla, en aðgreina ekki, enda yrði það allmikil töf.

Þá er að minnast á það ákvæði, að tilgreina eigi veiðitíma. Jeg held að það verði erfitt og ómögulegt að gera það með nokkurri nákvæmni. Menn veiða látlaust, og gæta þess ekki að aðgreina afla eins dags frá öðrum, enda ekki þægilegt, og gætu þeir þá ekki gefið aðrar upplýsingar en þær t. d., að þessi lifur væri veidd frá 15. júlí til 30. ágúst. Þetta ákvæði nær því ekki tilgangi sínum, fremur en lögin í heild sinni. Tilgangur þeirra er sá, að bæta vöruna, en jeg sje ekki að það verði gert annarsstaðar en á pappírnum, eftir þessu frv.

Jeg vil bæta við þeirri ósk, að eintök af lögunum verði send í allar veiðistöðvar, auk þess sem þau verða send til bænda, því seljendum er ekki síður nauðsynlegt að vita, hvernig þeir eiga að haga sjer, en kaupendunum. Báðir verða að þekkja lögin, ef viðlit á að vera til, að þau komi að einhverjum notum. Jeg veit, að vara þessi er mjög svikin, en seljendunum verður yfirleitt ekki eins um kent og alment er gert.