13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í C-deild Alþingistíðinda. (3310)

136. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Það varð að samkomulagi milli okkar ráðherranna, að fjrh. (M. G.) hefði orð fyrir stjórninni í þessu máli, og þess vegna er ekki svo nauðsynlegt, að jeg taki til máls, en þó vildi jeg segja nokkur orð út af ummælum háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.).

Hann sagði eitthvað á þá leið, að þetta frv. væri óþægilegt fyrir stjórnina og mundi koma henni í hálfgert klandur. Jeg vil taka það fram, að þetta frv. er alls ekkert klandur fyrir stjórnina. Henni skilst glögglega, hvílíkt vandamál hjer er á ferðum, og það er víst hjá öllum þm. sú ábyrgðartilfinning vöknuð, að þeir láti ekki afstöðu til stjórnarinnar ráða miklu, þegar um þetta mál er að ræða. Þetta mál hefir verið miklu meira alvörumál fyrir stjórnina heldur en hitt, hvert fylgi hún hefði meðal þm. Og hvað þetta frv. snertir, þá hefi jeg tekið það eins upp og frv. Ed., að þar kemur fram einlæg viðleitni til að styðja þann tilgang stjórnarinnar, sem var í hennar eigin frv., að koma Íslandsbanka á flot aftur. Þess vegna hefir stjórnin ekki haft ástæðu til annars en að taka þessi frv. bæði vel upp, hvort fyrir sig. Það er því ekki stjórnin, sem veltur á, heldur veltur á því, hvað þm. geta komið sjer best saman um í þessu máli, svo fram gangi sá sameiginlegur grundvöllur málsins, sem hjer er til umræðu, og þess, er næst er á dagskránni. En leitt þykir mjer það, að það skyldi ekki vera frv. Ed., sem fyrst væri til umr. hjer, því að eins og hæstv. fjrh. (M. G.) tók fram, þá er það komið alveg í gegnum deildina þar, fyrir talsvert mikla málamiðlun til samkomulags. Aftur á móti er hvorugt búið að fá reynslu í þessari deild; menn vita enn þá ekkert um fylgi hjer, og því hefði verið rjettara að prófa fyrst það frv. sem óskorað fylgi hafði á undan fengið í Ed.

Jeg skal nú ekki fara út í neinn samanburð á þessum tveim frv., að eins geta þess, að jeg er nokkuð á sama máli og hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) um það, að afstaða Íslandsbanka til þessa frv. sje sú, að hann telji sjer miklu minni tryggingu í þessu frv. en í frv. Ed. fyrir því að geta starfað áfram. Og jeg geri ráð fyrir, að þetta sje í tvennu tilliti. Í fyrsta lagi viðvíkjandi takmörkunum á seðlaútgáfunni í 1. gr., í stuttu máli, að hún sje helst til nærgöngul við hann til þess, að hann geti starfað; og í öðru lagi, að honum þykir óvissan um hlutafjáraukann of mikil í þessu frv.

Á þetta vildi jeg benda, og mjer þykir mjög leitt að þurfa að greiða atkvæði um þetta frv. áður en hitt hefir verið prófað í deildinni.