13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í C-deild Alþingistíðinda. (3311)

136. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sagðist undra það, að stjórnin skyldi ekki vilja þetta frv., þar sem það væri svo líkt hennar frv. Jeg skal viðurkenna, að nokkuð er til í því, en vil þó benda á það, að einhvern mun finnur hv. 1. þm. Árn. (E. E.), þar sem hann getur fylgt þessu frv., en ekki stjórnarinnar. En ástæða mín til andstöðu gegn þessu frv. er sú, að jeg tel heppilegra til úrslita að leggja Ed. frv. til grundvallar, því það var afgreitt þaðan í einu hljóði. Enn fremur er það, að síðan stjórnarfrv. var búið til, eru liðnir 6 mánuðir, og þeir hafa fært manni heim sanninn um margt, sem maður vissi ekki fyrir 6 mánuðum. Jeg hefi ekkert borið undir Íslandsbankastjórnina, en hjelt, að háttv. þm. (Jak. M.), sem er í peningamálanefnd, þekti hug bankastjórnarinnar svo, að hann vissi, hvernig hún mundi taka í þetta mál. Er undarlegt af háttv. þm. (Jak. M.) að spyrja stjórnina um það, sem honum ber sem nefndarmanni að vita. Annars er það verk, sem hjer á að vinna, að finna þá úrlausn, sem getur gert bankann færan um að starfa áfram; svo langt verður að fara í rjettindaveitingum til hans, að hann verði þess megnugur; en svo heldur ekki lengra. Það má vera rjett, sem háttv. þm. sagði, að það væri ekki svo stórt atriði, hvort seðlaútgáfunni væri ráðstafað nú eða síðar. Það er sem stendur ekki gert nema til hálfs, og mjer skilst háttv. þm. eigi gera þetta að kappsmáli. Það er ekki verra að hafa seðlaútgáfuna óbundna á næsta þingi. Það er ekkert á móti því að athuga næsta ár, hvað við hana skuli gert. Allflestir eru þeirrar skoðunar, að hún eigi að fara til Landsbankans, en auðvitað er ekkert á móti því að athuga það nánar.

Háttv. þm. (Jak. M.) sagði, að hans till. rjeðu nú ekki miklu. Hann ræður nú alveg eins miklu og hver annar hv. þm., ekki síst þar sem hann er í peningamálanefnd. Hann sagðist ekki vita, hvort ætti að draga inn seðlana ofan frá eða neðan frá. Það er nú alveg auðsætt, að það á að draga inn ofan frá. Það leiðir af fyrirkomulaginu. Þegar bankinn á að draga inn seðlanna árlega, getur toppurinn ekki verið hjá honum, nema seðlaútgáfan minki árlega meira en svarar þessum tíunda hluta.

Það eru margir háttv. þm., sem hafa tekið það fram, að margt sje gott í frv. Ed. og að margt sje sameiginlegt með þessu frv. og því, sem næst er á dagskránni. Þetta er rjett, og því væri líka rjett að leggja það frv. til grundvallar, sem útrætt er og afgreitt með shlj. 14 atkv. Í Ed. En játa skal jeg það, að einn eða tveir dagar hafa ekki svo mikla þýðingu í þessu máli, ef um veruleg atriði er að ræða, þótt jeg hins vegar geti ekki horfið frá því, að hverjum þm. ber skylda til þess að stuðla að því, að þingið standi sem styst.

Jeg tel ekki ástæðu til að ræða meira um uppástungu mína til háttv. þm. Ak. (M. K.). Úr því hann vill ekkert sinna henni, þá nær það ekki lengra, en frá því hverf jeg ekki, að betra væri að taka fyrst Ed. frv. Hann sagði, að ekki bólaði á neinu ósamkomulagi milli deildanna í þessu máli. Það gerir það nú samt, þar sem Ed. hefir með samhlj. atkv. samþ. frv., sem hv. þm. Ak. (M. K.) o. fl. alls ekki virðast vilja sinna.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði í ræðu, að hjer væru annars vegar hagsmunir almennings og hins vegar hagsmunir Íslandsbanka. Þetta er ekki rjett. Hjer er aðeins um hagsmuni almennings að ræða. Hagsmunir Íslandsbanka hafa alls ekkert að segja, nema að því leyti sem þeir fara saman við hagsmuni almennings. En eins og hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) sagði, þá liggja svo margar taugar frá þessum banka út um alt land, að varlega verður að fara, ef losa á um þær allar.

Það er alveg rjett að fylgja ráðum hv. þm. Ak. (M. K.), að taka hitt frv. af dagskrá, ef þetta frv. verður samþ.

Jeg veit ekki, hvort ástæða er til að svara hv. 1. þm. Árn. (E. E.) miklu. Hann fylgir nú þessu frv., en ekki stj.frv. Það hlýtur að vera vegna lánsins, Íslandsbanka, hlutafjárkaupanna og bankaráðs Landsbankans, því að þetta eru þau nýju ákvæði, sem mestu máli skifta.

Nú hjelt jeg, að hv. þm. (E. E.) væri ekki fylgjandi því að kaupa hluti í bankanum, og held, að Landsbankinn óski þess ekki heldur. Lána bankanum vill hann ekki heldur, og þá ætti það einkum að vera þetta bankaráð, sem heillaði þm., og er það ekki nema eðlilegt, eftir allan hrærigraut hans, hártoganir og munnskálp í þessu máli.

Hv. þm. (E. E.) furðaði sig á því, að jeg skyldi spyrja um, hverja skoðun stjórn Landsbankans mundi hafa um ákveðið atriði. Vissi háttv. þm. þó, að ekki var jeg í nefndinni og gat því eigi vitað, hvaða álit stjórn bankans hefði látið uppi við hann. Hins vegar vissi jeg vel, hverjar skoðanir hún hafði látið uppi við stjórnina, því að þær liggja fyrir brjeflega Annars ætla jeg ekki að fara í kappræður við hv. þm. (E. E.), þó að hann sýndist hafa tilhneigingu til þess. En ekki er jeg honum sammála um það, að ekki þurfi að flýta málinu. Held jeg, að full þörf sje á því að fá enda á málið á þessu þingi, og hefir nefndin haft málið svo lengi til meðferðar, að vel mætti fara að draga til úrslita. Það er raunar satt, að enn er ókomið frv. frá þessum hv. þm. (E. E.), sem hann boðaði að mundi koma. En það er nú orðið svo langt síðan, að flestir munu orðnir úrkula vonar um, að það komi. (E. E.: Kem fram með það sem brtt.). Nú jæja, það er líklega það heppilegasta, að sem minst fari fyrir þessum væntanlega óburði þm. (E. E.), sem sjálfsagt fæðist andvana, eins og flest hin andlegu fóstur hans.