12.03.1921
Efri deild: 21. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í C-deild Alþingistíðinda. (3320)

156. mál, erfingjarenta

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Eins og jeg bjóst við, risu ýmsir öndverðir gegn brtt. Háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) áleit þetta leggja pressu á fólk, að giftast eigi fyr en 28 ára, en það má þá eins segja, að það sje þyngri pressa heldur en giftast 25 ára, eins og frv. fer fram á. Að menn sjeu í vinnumensku innan 20 ára aldurs, þá var talað um það í fyrra, og þá stungið upp á 16 ára aldri, en okkur fanst ekki geta komið til mála að miða þetta við lægri aldur en 20 ár, sem er lögmætur aldur til að hafa rjett til að vera í lausamensku. En eftir þeim lögum er ekki farið að jafnaði mikið betur en aðflutningsbannslögunum. Hvað því viðvíkur, að ekki megi setja eins ströng skilyrði nú og fyrir 30 árum, þá má segja, að fyrir 30 árum þurfti þeirra ekki við.

Háttv. 1. landsk. (S. F.) er hvorki ánægður með frv. nje brtt., segir, að það sje verið að verðlauna það að giftast seint. Það sje miklu nær að skatta einlífi en verðlauna. Háttv. þm. (S. F.) er innan handar að bera hjer fram frv. um það efni; eflaust mundi vera hægt að nota þær tekjur, sem við það fengjust. Hann hefir lagt út í annað eins og vel getur verið, að fleiri yrðu því fylgjandi.

Hv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) gat þess, að ekki væri hægt að sjá á frv., hvort bæði brúðhjónin þyrftu að hafa verið í vist þennan ákveðna tíma til að geta notið styrksins, en jeg margtók það fram, að þess þyrfti ekki nema annað, og ef karl og kona, sem unnið hefðu til verðlauna, giftust saman, hlytu þau hvort um sig að sjálfsögðu full verðlaun.