15.03.1921
Efri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í C-deild Alþingistíðinda. (3327)

156. mál, erfingjarenta

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Á þskj. 142 kemur landbúnaðarnefnd með tvær smábrtt. á frv. Fyrri brtt. er við 1. gr. frv. Hún er sú, að skírskotun til laga nr. 15, 11. júlí 1911, falli burt, og er hún rjettmæt, því tæpast á það vel við að vitna í þessi lög, sem líkur eru til, að bráðlega falli úr gildi, þar sem frv. til laga um erfðafjárskatt hefir nú verið lagt fyrir þingið. Hin brtt. er sú, að bætt er við, að með hjúum þeim, sem um er rætt, sjeu talin börn þau uppkomin, sem hafa unnið þennan ákveðna tíma sem hjú hjá foreldrum sínum, og býst jeg við, að háttv. deild verði á einu máli í því efni, að þetta sje rjettmætt.

Háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) hefir komið fram með 3 brtt. við frv. á þskj. 135, en tvær þeirra mega heita samhljóða brtt. landbúnaðarnefndar, og að því er kemur til breytinga á b-lið á 3. gr. frv., þá býst jeg ekki við, að landbúnaðarnefnd hafi neitt á móti, að sú breyting verði samþykt.