18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

38. mál, verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður

Gunnar Sigurðsson:

Jeg vil taka í sama streng og háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) með það, að þessi lög verða ekki annað en pappírslög fyrst um sinn. Alþingi hefir líka ávalt verið sjerlega duglegt að unga út lögum, sem illa eru haldin og sjaldan eða aldrei verður framfylgt úti um landið.

Annars er þetta þarft frv., því að mikið er svikið af þeim vörum, sem hjer ræðir um. En mjer finst of lítill aðdragandinn að þessu, þótt lögin sjeu allítarleg, en ekki að sama skapi praktisk.

Jeg er frv., því miður, ekki eins kunnugur og skyldi, hefi að eins haft tíma til að athuga það á meðan á þessum umræðum hefir staðið. En jeg held þó, að erfitt verði að framfylgja ýmsum ákvæðum þess. Þegar um einkaviðskifti er að ræða, þegar hönd selur hendi, þar verða þau altaf flókin. Í 2. gr. frv., 5. lið, stendur um lýsi, að gefa skuli tryggingu fyrir, hve margir hundraðshlutar af feiti sjeu í því að minsta kosti. Hugsum oss nú til dæmis, að á einni verstöð austan fjalls hafi einn formaður 1 fat af lýsi til skepnufóðurs til sölu. Hann hefir ekki vit á því, hve mikil fita er í lýsinu, nje heldur sá bóndi, sem af honum vill kaupa. Og hvernig væri svo hægt að koma sektarákvæðunum við hjer?

Jeg held, að það sje að minsta kosti nauðsynlegt, eins og sakir liggja, að vekja menn til umhugsunar um þetta mál. Sektarákvæðin, sem mjer virðast vera of há, má auðvitað ávalt færa niður, og ýmislegt í frv., sem mætti fara öðruvísi, má auðvitað laga með brtt. við 3. umr.

En á frv. var þörf, og jeg er þakklátur hæstv. stjórn fyrir það, að hún skuli hafa komið með það.