18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

38. mál, verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður

Jón Þorláksson:

Jeg hefi nú fengið þær upplýsingar, sem jeg bað um, og fengið að vita, að sá skilningur liggi í orðunum „verslað er með“, að þar sje að ræða um öll kaup og sölu á þessum vörum. Jeg bjóst við þessu eftir 2. gr., en ef málið hefði síðar komið fyrir dómstóla og ekki hefði verið minst á þetta hjer, þá er jeg ekki í neinum vafa um það, að sá skilningur hefði þar verið lagður inn í orðin, að eingöngu væri átt við kaupskap þeirra, er hefðu verslunarleyfi. Mjer finst, að þegar verið er að ræða um svona mikilsvert laganýmæli í verslunarmálum, þá megi ekki láta það ríða í bág við þekkingu vora á verslunarefnum. Ennþá er tími til stefnu, og jeg vil skjóta því til nefndarinnar, að hún, milli 2. og 3. umræðu. leggi málið undir dóm verslunarfróðra manna, t d. Verslunarráðs Íslands. Og jeg vil ennfremur beina því til nefndarinnar, hvort henni þykir hagkvæmt að setja samhljóða ákvæði um kaup og sölu á þeim fóðurbæti, sem er verksmiðjuvara, og á sjávarafurðum, sem framleiðendur selja beint til skepnufóðurs. Jeg fæ ekki sjeð, að rjett sje að krefjast jafnmikilla skrifta milli einstakra manna og milli kaupmanna og viðskiftavina.