18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

38. mál, verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður

Sigurður Stefánsson:

Frsm. (Þór. J.) hefir talað þrisvar, og er því dauður, svo að jeg verð að segja nokkur orð út af ummælum háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), þar sem hann var að tala um fóðurspilli, og mótmælti því, að þrátt lýsi eða legin síld gæti verið fóðurbætir. Það er nú reynsla margra manna, að varla sje til svo þrátt lýsi, að ekki megi notast við það sem fóðurdrýgindi. En það er rjett hjá háttv. þm. (Sv. Ó.), að allrar varúðar verður að gæta í þessu efni. Annars skiftir það engu máli, hvort það er kallað fóðurbætir eða fóðurauki: hitt er nú föst málvenja.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) athugaði það rjettilega, að hjer er ekki gerður greinarmunur á löggiltum verslunum og viðskiftum manna á milli, en úr slíku má bæta.

En alt þetta mun nefndin að sjálfsögðu taka til greina og athuga fyrir 3. umr.