15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3380)

103. mál, mat á aðfluttum kornvörum

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Þessi till. er fram komin eftir ósk fjölmenns kjósendafundar í kjördæmi mínu. Nú er lögskipað mat á flestum þeim manneldisvörum, sem vjer flytjum út. Aftur á móti er ekkert mat á útlendum matvörum, sem fluttar eru inn í landið, en reynslan hefir sýnt, að þess er síst vanþörf, sjerstaklega á kornvörum. Það er alkunna, að í skemdri kornvöru geta verið efni, sem eru stórskaðleg heilsu manna. Til þess að bæta úr þessu misfelli er till. fram borin. Hún fer að eins fram á, að stjórnin fyrirskipi mat á korni og mjöli, sem ætlað er til manneldis. Öllum er ljóst, að landsmönnum ríður mikið á, að trygt sje, að þessar vörur sjeu óskemdar. En það er full ástæða til að ætla, að hætta sje á ferðum, þegar þessar vörur eru fluttar inn skemdar, eða seldar eftirlitslaust.

Jeg sje annars ekki ástæðu til að lengja umræður um þetta að sinni, en vona, að háttv. deild treysti sjer til að samþykkja till. og stjórnin geri gangskör að því að framfylgja henni.