15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (3383)

103. mál, mat á aðfluttum kornvörum

Pjetur Ottesen:

Jeg held, að það sje miklum vandkvæðum bundið að framfylgja till. þessari, svo í nokkru lagi sje. Auðvitað væri ekki horfandi í nokkurn kostnað, ef með því væri loku skotið fyrir, að skemdar kornvörur til manneldis flyttust til landsins. Til þess að slíkt eftirlit kæmi að notum, þyrfti sjerfræðinga. Læknaeftirlit hrykki alls ekki til. Sjerfræðingar þyrftu að skoða vöruna efnafræðislega á rannsóknastofu. Jeg held, að það hafi litla þýðingu að lögbjóða það hjer á landi, að ekki megi selja kornvöru, sem komin er á höfn, fyr en búið væri að skoða sýnishorn af henni efnafræðislega á efnarannsóknarstofu. Nú er slík rannsóknarstofa ekki til nema hjer í Reykjavík, og þá færi nú að vandast málið, ef engar kornvörur, sem til landsins flyttust, mætti selja fyr en búið væri að senda sýnishorn af þeim hingað og rannsókn um garð gengin. Til þess að framkvæma slíkt lagaboð þyrfti að leggja í svo mikinn kostnað, og því fylgdu þeir erfiðleikar og tálmanir, að það yrði gersamlega óframkvæmanlegt.

Jeg býst við, að það hafi litla þýðingu að vísa þessari till. til nefndar. Það er í rauninni ekki annað fyrir hendi en að greiða atkv. annaðhvort með henni eða móti. Jeg skil vel, að háttv. þm. þyki leiðinlegt að greiða atkv. á móti henni. En jeg býst við, að það renni tvær grímur á suma, ef stjórnin legði fram frv. um þetta efni, sem skipaði fyrir, að svo skyldi að farið, sem jeg nefndi.