03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (3401)

107. mál, heimavistir við hinn lærða skóla í Reykjavík

Frsm. (Jón Þorláksson):

Jeg ætla að eins að gera dálítið nánari grein fyrir, hvers vegna jeg álít, að ekki sje fært fyrir stjórnina að gera undirbúning til heimavista fyrir kennaraskólann að svo stöddu. Jeg drap á áðan, eins og hv. þm. Dala. (B. J.) og hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) einnig gerðu, að það eru mjög skiftar skoðanir um það, hvernig fyrirkomulag skólans eigi að vera, hvort hann á að vera gagnfræðaskóli og kennaraskóli, eins og verið hefir, eða hvort hann á að vera þriggja ára skóli með gagnfræðapróf sem inntökuskilyrði. Eftir þessu fer heimavistarfyrirkomulagið.

Ef tillaga ráðunautanna um að hafa skólann bæði kennaraskóla og gagnfræðaskóla nær fram að ganga, og bekkjum skólans verður fjölgað, þá hlýtur sá, sem á að gera áætlun um fyrirkomulag heimavistanna, að haga starfi sínu eftir því, bæði hvað húsrúm og tilhögun snertir. En þar sem fyrirkomulag skólans er engan veginn ákveðið enn þá, þá fæ jeg ekki annað sjeð en að byggingarráðunauturinn hljóti að vísa þessu frá sjer, þar til hann veit, hve marga bekki skólinn á að hafa. Þess vegna held jeg, að maður geri máli þessu ógagn með því að hnýta þessu aftan í tillögu nefndarinnar, og það gerir málið þokukendara, ef eitthvert það ákvæði er sett inn, sem ekki er hægt að afgreiða fyr en eftir næsta þing. Jeg tók það fram áðan, að jeg álít, að kostnaðurinn hljóti að verða lítill við að gera þessar áætlanir, þar sem við höfum tvo menn með fullum launum, er vel ættu að geta sint þessu. En hins vegar býst jeg við því, að ekki sje hægt að nota neitt það húsrúm, sem nú er í skólanum, til heimavista, og verður því að sjálfsögðu að byggja hús til þeirra. Jeg leyfi mjer því að skjóta því til hv. flm. brtt. (Þorst. J.), þar sem hann sjálfur er ekki fastur á því, hvort tillaga ráðunautanna eigi að vera hin endanlega tilhögun skólans eða ekki, að hann taki brtt. aftur, í trausti til þess, að við hinir nefndarmenn viljum glaðir fylgja tillögu hans, strax er tími er til kominn.