03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (3416)

106. mál, elli og líftryggingar o. fl.

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg ætla að segja fáein orð, ekki til þess að andmæla till., heldur til þess að lýsa ánægju minni yfir því, að hún skuli vera komin fram. Mjer finst það bara ekki tekið nægilega vel fram í till., hvað það er, sem hæstv. stjórn á að rannsaka. Till. tekur sem sje aðeins yfir tvær tegundir trygginga og fleira. Þetta fleira veit jeg ekki hvað á að merkja.

Jeg vil geta þess, að mjer hafa borist áskoranir frá 2 fundum á Stokkseyri og Eyrarbakka um að bera upp till. fyrir hið háa Alþingi um að fela stjórninni að reikna eða láta reikna út:

1. Ellistyrk frá 65 ára aldri, að upphæð 600 kr.

2. Ókeypis sjúkrahúsvist, lyf og læknishjálp, þegar alvarleg veikindi ber að höndum.

3. öryrkjatrygging.

4. Uppeldisfje barna (lögákveðið meðlag).

Jeg get hugsað, að einhverjum þyki þetta æðiloftkent. Þó held jeg, að það geti komið í ljós, að þetta getur vel komið til mála alt saman. Og fyrsta sporið til þess að koma því til jarðarinnar er, að möguleikarnir sjeu reiknaðir út. Jeg held, að ef nákvæmir útreikningar væru gerðir, þá sýndi sig, að þetta er vel framkvæmanlegt.

Það er líklegt, að það mætti haga þessu þannig, að hver maður greiddi alt í einu lagi, að minsta kosti þeir, sem eru vinnufærir og fullþroska, en ekki hafa haft fyrir börnum að sjá. En með þessu mundi safnast saman geysifje til verklegra framkvæmda í landinu.

Fundarsamþyktirnar gera ráð fyrir, að tvítugur maður hafi greitt eða greiði einskonar þegnskyldugjald í eitt skifti fyrir öll, fyrir öll rjettindi, sem jeg hefi áður nefnt. Hvort þetta er framkvæmanlegt eða ekki er ekki hægt að segja um fyr en það hefir verið nákvæmlega reiknað út. En jeg get vel ímyndað mjer, að tvítugir menn alment mundu geta svarað út þessari upphæð, t. d. ef hún væri 1000 kr. Ef mennirnir gætu ekki greitt það sjálfir, þá gætu ef til vill foreldrar eða vandamenn hjálpað þeim til þess. En ef þeir væru ekki heldur færir til þess, þá mætti láta sveitina greiða fyrir þá, gegn endurgreiðslu á 5 árum. En þá hjálp ætti ekki að skoða sem fátækrastyrk. Það mætti segja, að sumir þessir menn myndu ekki lifa í þessi fimm ár. Fleiri myndu þó lifa þann tíma. En þótt svo færi, að sveitin fengi þetta ekki endurgreitt hjá einhverjum þeirra, þá ber þess að gæta, að sveitin ljetti með þessum hætti að mestu leyti öllu fátækraframfæri af sjer. Þetta fyrirkomulag myndi ljetta miklum sveitarþyngslum af, og jafnframt verða til þess að safna saman fje til þjóðnýtra fyrirtækja, sem annars lægi ef til vill ónotað að miklu leyti.

Jeg hefi kynt mjer talsvert, hvað margir fæðast hjer á landi á ári hverju. Skal jeg lesa hjer upp skýrslu nokkurra ára.

1914 fæddust 2333 karlar og konur

1915 — 2438 — - —

1916 — 2329 — - —

1917 — 2420 — - —

1918 — 2360 — - —-

Á þessu sjest, að á ári fæðast hjer um 2400 karlar og konur. Vitanlega nær ekki alt þetta fólk tvítugsaldri. Eftir því, sem ráða má af skýrslum, þá fækkar því um 223 af þúsundi hverju áður en það nær tvítugsaldri. Þá verða það 777 af því, sem ná þessum aldri árlega, eða 1848 samtals að meðaltali. En það má gera ráð fyrir, að þessi tala aukist heldur í framtíðinni, því samkvæmt reynslu síðari ára fer manndauði á þessu aldursskeiði heldur minkandi, vegna betri aðbúðar og aukinnar læknishjálpar og annars þvílíks.

Það má þá áætla, að 1900 manns nái tvítugu. Ef nú hver maður greiddi 1000 kr., þá kæmi þar samtals 1 miljón og 900 þús., og má það teljast álitleg upphæð. Vitanlega má segja, að ekki dugi að festa alt þetta fje í fyrirtæki, svo sem brúargerðir, hafnargerðir og annað þvílíkt. En mikið má þó festa. Það ætti ekki að þurfa meira en 1/3 til þess að geta greitt út alla styrki; 2/3 mætti festa í verklegum fyrirtækjum.

Jeg heyrði raddir um það eystra, að ekki mundi borga sig fyrir efnamenn eða svo kallaða bjargálnamenn að tryggja sig. En enginn veit sína æfina fyr en öll er, og ekki heldur þeir. Þó að ríkur maður eða bjargálnamaður ætti það víst að verða aldrei styrkþurfi alla æfi, mundi það margborga sig fyrir hann. Því ef þetta kæmist á, mundi hann komast hjá að greiða til sveitar mikið af þeim gjöldum, er hann annars þyrfti að greiða.

Þá má geta þess, að af þeim, sem ná 20 ára aldri, deyja að meðaltali 130 karlar og 100 konur af þúsundi, samtals 230. Frá 40–60 ára eru sjúkdómstilfelli enn tíðari, og má því gera ráð fyrir meiri manndauða. það verður því allmikið af ellistyrknum, sem aldrei þarf að greiða út. Til þess að hv. deildarmenn gangi þess ekki duldir, að nokkur kostnaður fylgir þessari rannsókn, get jeg nefnt það, að í Danmörku var skipuð 19 manna nefnd árið 1903 til þess að reikna út elli- og öryrkjatryggingar. Þessi nefnd skilaði ekki af sjer fyr en eftir 12 ár, og má af því sjá, að hún hefir ekki álitið þetta neitt áhlaupaverk.

Nefndarmenn komust allir að þeirri niðurstöðu, að æskilegt og framkvæmanlegt væri að koma á þessum skyldutryggingum. Þeir voru þó ekki allir sömu skoðunar að öðru leyti, hvernig ætti að haga henni. Sumir vildu láta 18—33 ára menn greiða 6 kr. á fjórðungsárinu, en aðrir vildu láta sveitar- og ríkissjóð greiða alt fyrir menn.

Það er því enginn efi á því, að ef þetta mál nær fram að ganga í því formi, sem jeg hefi lýst, er það tvímælalaust eitt albesta og stærsta nauðsynjamál, sem fyrir þessu þingi liggur, mál, sem hefir afarmikið gildi, bæði fyrir einstaklingana, til að gera tilveru þeirra öruggari, og einnig fyrir ríkið í heild sinni, til að afla því starfsfjár. Jeg leyfi mjer því fastlega að vænta þess, að háttv. deild sýni máli þessu þann sjálfsagða sóma að samþykkja það, og einnig að hæstv. stjórn framkvæmi það sem næst því, sem jeg hefi nú lýst.