26.04.1921
Neðri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (3417)

106. mál, elli og líftryggingar o. fl.

Fjármálaráðherra (M. G.):

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að tryggingamál yfirleitt eru nú eitt mesta velferðarmál mannkynsins, og það er því síður en svo, að ástæða sje til þess að amast við framkomu þessa máls hjer. Þvert á móti. Það er skylt að taka því tveim höndum, og get jeg sagt það undir eins, að því er til mín kemur, að jeg hefi ekkert á móti því, að fleiri tryggingamál verði rannsökuð um leið, eins og hv. 2. þm. Ám. (þorl. G.) talaði um.

Jeg geri ráð fyrir því, að flestir hv. þm. hafi kynt sjer eitthvað merka ritgerð um slíkar tryggingar, sem birtist í tímaritinu Iðunni nú fyrir skömmu. Hugmyndir þær, sem þar eru settar fram, eru stórfenglegar og merkar og sannarlega þess verðar, að málið sje nákvæmlega rannsakað. Jeg er þess fullviss, að ekki er horfandi í það að kosta 10–20 þús. kr. í rannsókn þessara mála, en auðvitað tekur rannsóknin allmikinn tíma, og mega hv. þm. því ekki vera alt of bráðlátir eftir úrslitum, þó auðvitað verði þeim hraðað eftir föngum.