03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (3429)

115. mál, hrossasala innanlands

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg get ekki sagt, að hv. landbúnaðarnefnd hafi verið sjerstaklega nærgætin við stjórnina í aðfinslum sínum við framkvæmdir hrossasölunnar síðastliðið sumar, þar sem hún kemur hjer með slíka „krítik“ á hrossasölumálinu og slöngvar yfir mig, án fyrirvara og óviðbúinn, til þess að bera hönd fyrir höfuð mjer. Þótt jeg hafi ekki hjer á reiðum höndum nú gögn þau, sem við þurfa, þá veit jeg fyrir víst, að flest af þessum kæruatriðum má leiðrjetta og kostnaðinn rjettlæta, ef menn vilja eftir taka og kryfja málið frá rótum.

Nefndin hafði haft við orð við mig, að hún mundi leggja fram nefndarálit um hrossasöluna. Og þótt jeg ætti alls ekki von á, að þess þyrfti í því skyni að finna að framkvæmdum stjórnarinnar í hrossasölumálinu áður, þá hefði sannarlega verið rjettara að láta allar þessar athugasemdir í ljós á þann hátt, sem nú byltist hjer út í ræðu, og þá hefði jeg getað mótmælt ýmsu með gögnum og upplýst með skýringum.

Að þessu sinni verður því ekki mörgu svarað, en þó skal jeg reyna að leiðrjetta sumt af því, sem hv. frsm. (Þór. J.) hafði fram að bera.

Hann mintist á tímaeyðslu markaðshaldaranna, og hefir þá sennilega miðað við það, sem gerðist fyrir norðan. Maðurinn, sem þangað fór, komst ekki af með minni tíma, og ekki hægt að haga markaðshaldinu öðruvísi, úr því reka varð hrossin suður, en að skipa þeim út fyrir norðan reyndist ekki framkvæmanlegt, og það af ástæðum, sem jeg skal koma að síðar.

Hann (Þór. J.) mintist líka á, að hagbeit hrossanna hefði orðið óþarflega dýr í flestum áningastöðum, gistingar og yfir höfuð allur reksturinn. Það er nú kunnugt, að dýrtíð og „spenningur“ var á öllu, mönnum sárt um haglendi sín í slíku grasleysisári, og ekki síst þegar þess er gætt, að þetta var á þeim stöðum, sem mest er umferðin, enda hygg jeg, að hvergi nokkursstaðar hafi verið borgað meira en krafist var, og jafnvel erfiðleikum bundið að komast að samningum fyrir það verð, sem borgað var.

Það er víst óhætt að segja, að bændur sjeu ekki neitt sjerlega greiðugir í þessum efnum, enda oft alls ekki að ætlast til þess. En alt safnast þegar saman kemur, og svo var hjer; margt varð náttúrlega til þess að auka þennan kostnað.

Jeg er þess fullviss, að markaðshaldararnir hafa gert sitt besta, verið sanngjarnir í viðskiftum sínum við bændur og vandir að virðingu sinni. En hjer á Suðurlandi var mjög ljeleg grasspretta, og eftir því sem markaðshaldaramir segja, þótti mjög skarpt um haga þegar búið var að reka einn stóran rekstur úr Hrútafirði og hingað suður, og komu þó inn á sama svæði fleiri rekstrar, bæði úr Dalasýslu og Borgarfirði, svo slíkur ágangur á högum bænda hefir að sjálfsögðu hækkað í verði að mun hagbeit hrossanna hjá bændum.

Nei, jeg er hræddur um að hv. landbúnaðarnefnd hafi ekki athugað alla þá örðugleika, sem voru á því að flytja út hross, sjerstaklega síðastliðið sumar; t. d. virðist hún algerlega hafa gengið fram hjá því atriði, sem ekki skiftir þó hvað minstu máli, en það er skifting hrossanna á markaðina erlendis; hestarnir seldir til Englands, en hryssurnar, meiri hlutinn, til Danmerkur, og það af hryssum, sem fóru til Englands, varð að vera af sjerstakri stærð. Þetta gerði það að verkum, að öllum hrossunum varð að safna saman á einn stað og skilja þau þar í sundur. Meðal annars af því var ekki hægt að flytja út úr Norðurlandi. Þurfti að senda stærstu hestana til Danmerkur, en hina minni til Englands vegna þess, að enginn verðmunur var á hestunum í Englandi, þeim sem voru yfir 50 þuml. á hæð.

Þetta alt, sem jeg hefi nú talið, gerði mikla erfiðleika og kostnað fyrir útflutninginn. Ekki má hjer heldur gleyma einu atriði, sem miklu máli skifti, og það var skipakosturinn. Útflutningsnefndin hafði ekki sjálf ráð á neinu skipi til útflutnings hrossanna. Zöllner lagði sjálfur til skip fyrir hrossin til Englands, en setti það þó upp að fá nægan farm í hvert skifti. En þetta var ekki hægt að standa við fyllilega. Og beið hann því skaða af því, að ekki var hægt að útvega jafnmörg hross og til stóð í fyrri farmana. þetta eru alt saman örðugleikar, sem þessi hv. nefnd hefir ekki gert sjer í hugarlund.

Hv. frsm. (Þór. J.) hugsar sjer, að hægt hefði verið að spara að miklum mun geymslu- og hagakostnað við hrossin. En slíkt er af ókunnugleik hans á þessum sökum. Það var hverri stjórn ómögulegt, eins og á stóð. Til þess hefði að minsta kosti þurft að hafa minni farma og fleiri, svo að ekki hefði þurft að safna saman mjög mörgum hrossum í senn.

Eins og kunnugt er, þá er hagatollur mjög hár hjer. Geldinganes og Álfsnes eru skárstu beitilöndin hjer, því bæði er þar aðhald gott og hagi kjarngóður. Útflutningsnefndin hafði hrossin í Gufunesi 1919, en var knúð til þess af dýraverndunarfjelaginu að taka þau þaðan, vegna þess, að fjelagið áleit þau ekki hafa þar sæmilega haga, Kom nefndin þeim þá í geymslu hjer nálægt Reykjavík; þar varð að hnappsetja þau og fóru þau því miklu ver með sig en ef þau hefðu fengið að vera kyr í nesinu. Það er sá kostur á að hafa hross á afgirtu svæði, að þar geta þau gengið frjáls um svæðið.

Hv. frsm. (Þór. J.) mintist á það, að nú yrði framvegis betra að hafa ráð á skipum, og mintist á landssjóðsskipin. En þar til er því að svara, að þau skip eru nær því óhæf til hrossaútflutnings. Þó er það engan veginn meining mín með þessu, að ekki verði hægt að fá sæmileg skip til þessa, t. d. skip Eimskipafjelags Íslands.

Enn hjelt frsm. (Þór. J.) því fram, að hægt væri að lækka skrifstofukostnaðinn. Það getur verið, að eitthvað megi lækka hann á næsta sumri, en jeg held fast við, að hann hafi ekki verið óeðlilega hár nú.

Þá kem jeg að hneykslissögum hv. frsm. (Þór. J ). þeim œtla jeg ekki að svara. En hitt veit jeg, að tiltölulega mjög fátt af þeim hrossum, sem hingað hafa komið, hafa reynst óhæf til útflutnigs. Dýralæknir hjer hefir skoðað hrossin, og þau eru sárfá, sem hann hefir dæmt óhæf til útflutnings. Annað mál er það, og algengt, að hross farast á leiðinni eða meiðast. Það hefir og fyrir komið, að hross hafa heltst hjer, og þá verið geymd til næsta farms. En jeg hygg, að það hafi ekki verið nema 6–10 hross þessi 3 ár undanfarin, sem þurft hefir að selja hjer af þeim sökum.

Annars held jeg, að það sje mikill ókunnugleiki í nefndinni á því, hve útflutningur í svona stórum stíl er afarvandasamur. Jeg nefni það hjer sem dæmi, að svo stóð á um vissan stærðarflokk af hryssum, að ef þær voru sendar til Englands, þá fekst 130 kr. lægra verð fyrir þær en ef þær voru sendar til Danmerkur. Sama má segja um hestana, að vissar stærðir af þeim þurftu að fara til hvors landsins, Englands og Danmerkur.

Þá vil jeg minnast á hina fyrirliggjandi þingsályktunartillögu. Stjórnin hefir nú þegar skipað útflutningsnefnd sömu mönnum og í fyrra. Ástæðan til þess var sú, að stjórnin taldi þessa menn hafa reynst sæmilega, og kom ekki auga á aðra betri. Auk þess hafa þessir menn mjög góð sambönd við menn í hrossahjeruðum landsins. Jeg hafði nú tækifæri til þess í gær að bera þessa þál. landbúnaðarnefndar undir útflutningsnefndina, og get jeg borið álit þeirra fyrir mig um einstaka liði till.

Jeg get gengið inn á það, að gott sje að koma hrossafjelögum á fót, en jeg er hræddur um, að slíkt geti ekki komist í kring á þessu vori.

Það hefir ekki reynst auðhlaupið að því fyrir stjórnina að fá ýmsar áríðandi upplýsingar frá hjeruðunum, t. d. vissu um það, hve mörg hross komi úr hverju hjeraði. því þótt þau hafi lofað ákveðinni tölu hrossa til útflutnings, þá hefir ekki verið staðið við þau loforð. Þetta hefir verið mjög bagalegt, þar sem stjórnin hefir þurft að útvega fyrirfram ákveðið skipsrúm á ákveðnum degi á ákveðnum stað. En vegna brigða hjeraðanna á loforðunum hefir ekki ætíð verið hægt að standa algerlega við slíka samninga. Hlýtur þetta að draga úr eftirspurn hrossanna og minni líkur til, að hagstæðir samningar fáist, ef ekki er hægt að segja fyrirfram með nokkurn veginn vissu, bæði um tölu hrossanna og útskipunartíma. En vel má vera, að hrossafjelögin geti einmitt bætt úr þessu með tímanum.

Annan lið till. bar jeg undir útflutningsnefnd. Taldi hún mjög varhugavert að treysta á það, að hjeruðin sæu sjálf um rekstur hrossanna til útskipunarstaða. Það sjest og ekki af þessari till., hvort hvert hjerað eigi að bera kostnaðinn af rekstrinum sjerstaklega. Væri það eðlilegra, enda þótt rekstrarkostnaðurinn hafi hingað til verið greiddur af óskiftu.

Því verður ekki neitað, að allmikill munur er á því, hvort hrossin eru tekin í nágrenni Reykjavíkur eða norður í landi. Sýnist því rjett, að hjeruðin fái að njóta aðstöðu sinnar í þessu efni. Hygg jeg, að það væri best, til þess að stjórnin hefði sem minstan vanda, að komið yrði með hrossin til framskipunarstaðar, og að þar yrðu þau mæld og keypt af markaðshaldara stjórnarinnar. En þetta er auðvitað þeim skilyrðum bundið, að framskipunarstaðir fáist víðar en í Reykjavík.

Fjórði liður till. er um útskipun hrossa á Norðurlandi. Þetta hafa útflutningsnefndirnar reynt, og það tókst um einn farm árið 1919. Það áttu að vera tveir farmar, en annar þeirra fórst fyrir, af því að stóð á skipinu. Í fyrra tókst ekki að semja um slíka útskipun nyrðra, nema þá af Akureyri. En slíkt var ógerningur, vegna hins tvennskonar markaðar, sem jeg hefi áður drepið á. Nú er von um, að hægt verði að fá framskipun af Borðeyri. En þá þarf að gera þar talsverðan undirbúning, því útskipunartækin eru þar svo ófullkomin, að ekki er við þau unandi.

Fimti liðurinn er um andvirði hrossanna. Útflutningsnefndin og stjórnin hafa ætlað sjer að skifta um þá aðferð, að flytja peningana fyrir hrossin um allar sveitir, en borga heldur hrossin framvegis með tjekkávísunum á bankana hjer. En svo hefir reynst undanfarið, að allmikil tregða hefir á því verið að fá hrossin, og því þurft að gera alt til þess, að framboð á hrossunum ykist. Og stundum hefir staðið á því að fá hrossin keypt, jafnvel þó að peningarnir hafi verið boðnir seljendunum út í hönd. Markaðshaldarar hafa því talið óhjákvæmilegt, að hrossin væru borguð út í hönd á hverjum markaðsstað, svo að ekki yrði tilfinnanleg vöntun á þeirri hrossatölu, sem um hefir verið samið í hvert sinn. En nú ætlar útflutningsnefndin framvegis að reyna að prófa hina aðferðina, og borga í ávísunum, ekki síst þar sem það hefir reynst mjög dýrt að fá þessi peningalán fyrirfram og borga af þeim „disconto“ í bönkunum.

Loks vil jeg geta þess, að jeg uni mjög illa þessum hneykslissögum um hryssumar, og þykir það nokkuð ónærgætnislegt af nefndinni að slá slíku hjer framan í stjórnina óviðbúna og fyrirvaralaust. Jeg get því miður ekki svarað til þessa nú, og vil því skjóta því til hæstv. forseta, að hann taki nú málið af dagskrá og fresti þessum umr.