18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (3439)

115. mál, hrossasala innanlands

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg kvaddi mjer hljóðs vegna þess, að nokkrir menn fyrir austan hafa kvartað yfir því, að þeim hafi verið goldið lægra fyrir hross sín heldur en hrossaeigendum norðanlands, eins og hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) tók fram. Jeg játa það, að jeg er ekki nægilega kunnugur til þess að geta staðhæft þetta, því að jeg hefi ekki fengið skýrslur um það. En jeg hefi fengið hæstv. atvrh. (P. J.) skjal, þar sem fundur, sem haldinn var við Þjórsárbrú, skorar á mig að halda fram rjetti Sunnlendinga.

Það sjá allir heilvita menn, að Sunnlendingar greiða til jafns við Norðlendinga kostnaðinn við að reka hrossin að norðan til Reykjavíkur. Þó væri það ekki eins tilfinnanlegt eins og það, sem hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) skýrði frá og fullyrðir að sje rjett, að hrossaeigendur fyrir austan fái 10–20 kr. minna fyrir hross sín heldur en aðrir hrossaeigendur á landinu.

Jeg verð að krefjast þess, að slíkt komi ekki fyrir aftur. En jeg sje ekki, að þál. hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) geti komið til greina. Jeg veit ekki til, að neinn sjóður sje til, sem beri að greiða þetta. (Gunn. S.: Jeg hefi upplýst, að hann sje til). Því er neitað. Og ekki er hægt að heimta af stjórninni, að hún greiði uppbótina. Hún á enga sök á þessu, því að hún hefir falið þetta þeim mönnum, sem áður höfðu farið með þetta og mátti því búast við að væru færir til þess. En jeg vil leggja áherslu á, að þetta komi ekki fyrir aftur.

Jeg verð sömuleiðis að víta það, hvað markaðshöldurunum hefir verið greitt hátt kaup. Jeg álít það gersamlega rangt gagnvart þeim bændum, sem hjer eiga hlut að máli. Það nær ekki nokkurri átt að fara svo með fje fátækra manna. Það er rangt að greiða einum manni 1% af svo miklu fje. Það var hægurinn nærri að láta hann hafa ávísanabók. Þá nær engri átt að greiða honum 1% af ágóðanum fyrir að gefa út ávísanir úr bókinni. En það dugir ekki að sakast um orðinn hlut. Jeg ætlast ekki til, að stjórnin endurborgi fjeð, sem haft hefir verið af Sunnlendingum, vegna þess, að jeg veit ekki hvar á að taka það. En jeg vona, að þetta komi ekki fyrir aftur.

Jeg get lýst ánægju minni yfir því, að hv. landbúnaðarnefnd hefir borið fram till. sína. En vegna þess, að sýslunefndarfundum mun nú lokið í flestum hrossahjeruðum, þá býst jeg ekki við, að gott sje að fela sýslunefndum að útnefna menn til þess að framkvæma það, sem hrossasölufjelögin eiga að framkvæma í ár. Jeg vil því leggja til, að hæstv. stjórn feli einstökum mönnum í hrossasýslunum að framkvæma þetta nú í ár.