18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (3446)

115. mál, hrossasala innanlands

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Viðvíkjandi því, sem talað hefir verið um þennan verðmun hrossanna og um tilhögun sölunnar framvegis út af því, skal jeg taka það fram á ný, að ef fara á svona strangt í sakirnar, eins og umr. nú benda til út af því, er varla önnur leið hugsanleg en sú, að enginn munur verði gerður hrossanna, nema eftir hæð, og er þá illa farið, því tilhögun undanfarandi ára hefir reynst mikil umbót frá því, sem áður var, og mundi hafa góð áhrif, ef hún hjeldist. Annars má benda á það í þessu sambandi, að meðan verslun hrossanna var „frjáls“, var ekki verið að metast um slík atriði, og munu skakkaföll á verði þá hafa verið ólíkt meiri, eftir mismunandi smekk, áliti og kringumstæðum kaupendanna. Og um uppbæturnar er það að segja, að óframkvæmanlegt er, eins og nú er komið, að skifta þar rjettlátlega niður. Og svo aðeins eitt að endingu. Ef farið verður að þrengja mjög að stjórninni með framkvæmd laganna, hlýtur það að leiða til þess, að hún treysti sjer ekki til að taka þau til framkvæmda, eða nota heimildina í þeim.